Um 250 staðfestar undanþágur vegna mikilvægra starfa

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Um 250 manns frá ríkjum utan EES og EFTA hafa fengið staðfestingu á því að þeir uppfylli skilyrði fyrir undanþágu frá ferðatakmörkunum við komuna til landsins á þeim grundvelli að störf þeirra teljist efnahagslega mikilvæg og geti ekki verið innt af hendi síðar eða erlendis. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.   

Samráð utanríkisráðuneytis, Útlendingastofnunar og lögreglu um undanþágur

Útlendingastofnun, utanríkisráðuneytið og lögreglan vinna í sameiningu úr beiðnum fólks um undanþágur frá ferðatakmörkunum á þeim grundvelli að það þurfi að sinna brýnum erindum hér á landi. Starfshópur á vegum utanríkisráðuneytis, skipaður starfsmönnum utanríkisráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Íslandsstofu, tekur við fyrirspurnum og fer yfir þær.

Niðurstaða starfshópsins er send til Útlendingastofnunar sem gefur ráðgefandi álit um það hvort skilyrði fyrir undanþágu séu uppfyllt og lögreglan tekur svo lokaákvörðun um undanþágur. Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins og í skriflegu svari frá utanríkisráðuneytinu. 

Hér á landi gilda sömu ferðatakmarkanir og innan ESB og Schengen-svæðisins og ferðamenn frá fjórtán ríkjum utan Schengen-svæðisins eru undanskildir ferðatakmörkunum.  

Ýmsar ástæður fyrir undanþágum á grundvelli brýnna erinda

Á vef Útlendingastofnunar má finna lista yfir skilyrði sem fólk þarf að uppfylla til að eiga kost á undanþágu á þeim grundvelli að það þurfi að sinna brýnum erindum hér á landi. Listinn er fjölbreyttur, til dæmis má farþegi ferðast milli tveggja ríkja utan Schengen og millilenda á Íslandi. Starfsfólk sem starfar í flutningum og þjónustu, fólk sem þarf alþjóðlega vernd og fólk sem ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni getur fengið undanþágu. Það sama á við um heilbrigðisstarfsmenn, diplómata og námsmenn sem ferðast til að sækja nám.

Þá eru veittar undanþágur til einstaklinga sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna starfa sem teljast efnahagslega mikilvæg og geta ekki verið framkvæmd síðar eða erlendis. Eins og fram kemur hér að ofan hafa um 250 undanþágur verið veittar á þeim grundvelli, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Að svo stöddu hefur fréttastofa engar upplýsingar um það hver þessi störf kunna að vera.

Ráðuneytið gefið út á fimmta hundrað staðfestingar vegna fjölskyldutengsla 

Frá því að ferðatakmarkanir tóku gildi vegna COVID-19 faraldursins hefur utanríkisráðuneytið gefið út á fimmta hundrað bréfa til staðfestingar á því að ferðatakmarkanir eigi ekki við um fjölskyldur ríkisborgara EES-ríkja og EFTA-ríkja og þeirra sem hafa dvalarleyfi þar. Þó má ætla að fleiri hafi komið til landsins á þeim grundvelli, þar sem afkomendum og ættingjum nægir að framvísa fæðingarvottorði sem sýnir fram á tengsl og mökum nægir að sýna fram á hjónavígsluvottorð.  

Fréttastofa bíður svara frá lögreglunni á Suðurnesjum um heildarfjölda þeirra sem ferðast hafa til landsins á grundvelli einhvers konar undanþága eftir að ferðatakmarkanir vegna COVID-19 faraldursins voru settar á. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi