Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tók við fálkaorðunni í strigaskóm af barnabarninu

Mynd: Ragnar Visage Sigrúnarsson / RÚV

Tók við fálkaorðunni í strigaskóm af barnabarninu

21.07.2020 - 13:47

Höfundar

„Andrea Jónsdóttir rokkamma er komin á matseðilinn,“ segir Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarkona sem leikstýrir heimildamynd um Andreu. Hún biður fólk sem lumar á sögum, myndskeiðum, myndum eða upptökum af Andreu að hafa samband við sig og aðstoða við heimildasöfnun.

Heimildamynd um Andreu Jónsdóttur, útvarpskonu og plötusnúð með meiru, er nú í bígerð. Hrafnhildur Gunnarsdóttir, leikstjóri myndarinnar og heiðursgestur Skjaldborgar árið 2020, leitar nú að efni: Ljósmyndum, myndskeiðum og hljóðupptökum af útvarpskonunni sem nýst geta í heimildavinnunni. „Andrea Jónsdóttir rokkamma er komin á matseðilinn. Að vísu erum við enn að fjármagna en ég er í samstarfi við mjög öfluga konu sem heitir Anna Hildur Hildibrandsdóttir,“ segir Hrafnhildur.

Andrea er rokkíkon

Hrafnhildur og Andrea hafa þekkst í nokkur ár svo þegar leitast var eftir því við hana að hún leikstýrði mynd um rokkömmuna var Hrafnhildur aðeins efins í byrjun. „Andrea er svo nálægt mér. Hún er bara hluti af landslaginu,“ segir hún. „En allt í einu uppgötvaði ég að hún er íkon, rokkíkon og miklu meira. Hún er svo lágstemmd manneskja og róleg, fer sínar eigin leiðir í rólegheitunum og ég dáist að henni.“ Eftir örskamma umhugsun lá svarið fyrir. „Það tók því ekki langan tíma að segja já, auðvitað.“

Plötusnúður á áttræðisaldri

Andrea starfar sem plötusnúður á skemmtistaðnum Dillon þar sem hún þeytir skífum um helgar. Það er list sem hún þekkir vel og hefur stundað lengi. „Hún er fyrsta konan til að starfa sem plötusnúður á Íslandi og þó víðar væri leitað. Það er það sem er svo spennandi við hana,“ segir Hrafnhildur. Tónlist er allt um lykjandi í lífi Andreu sem einnig hefur leikið lög fyrir hlustendur Rásar 2 í áratugi. 

Margt af því sem Andrea hefur gert fyrir útvarpið hefur þó glatast í gegnum tíðina, að sögn Hrafnhildar. Því biðja framleiðendur myndarinnar almenning um aðstoð. „Því miður hefur lítið varðveist. Við erum að leita að fólki sem á kasettutæki og hefur tekið upp þætti. Ég veit að ég gerði það sjálf á sínum tíma en ég er búin að flækjast um allan heiminn og týna öllu sem mér var kært svo ég á þetta ekki til,“ segir hún. „Svo ef einhver á efni með Andreu má hafa samband við okkur á Fésbókarsíðu Rokkömmunnar eða senda okkur á netfangið [email protected].“

Grípur erfiða bolta frá lífinu og vinnur með þá

Í myndinni verður þó ekki eingöngu fjallað um afrek hennar í tónlistarmiðlun heldur verður fjallað um líf hennar frá barnæsku til dagsins í dag. „Mig langar að gera öðruvísi mynd núna. Ég hef verið pínulítið föst í hefðbundnum myndum en það er svo margt sem hægt er að gera með Andreu. Það sem ég heillast að er hennar leið til að lifa á Íslandi,“ segir Hrafnhildur. „Hún er til dæmis aldrei í átökum við fólk og ef það kemur til hennar erfiður bolti frá lífinu þá tekur Andrea hann og vinnur með hann.“

„Andrea tekur þau upp á sína arma“

Rokkamman hefur líka reynst mörgum vel og er alltaf tilbúin að rétta þeim hjálparhönd sem þurfa, að sögn Hrafnhildar. „Sumt fólk á alltaf skjól hjá Andreu. Hún tekur inn ótrúlegasta fólk sem á bágt og búið er að henda út á gaddinn. Andrea tekur þau upp á sína arma.“

Í strigaskóm af barnabarninu að taka við fálkaorðunni

Hún segir það til merkis um umburðarlyndi Íslendinga hvernig þeim sem fara sínar eigin leiðir og passa ekki inn í kassann hefur verið tekið vel í gegnum tíðina. „Andrea sýnir okkur Ísland í hnotskurn. Ísland er merkilegt að því leyti að hér hefur alltaf ríkt umburðarlyndi gagnvart fólki sem er öðruvísi og Andrea er sannarlega öðruvísi. Það sést best á því að þegar hún fór að sækja fálkaorðuna fór hún í gömlum strigaskóm af barnabarninu sínu. Háum strigaskóm með hæl,“ segir Hrafnhildur og hlær. 

Rætt var við Hrafnhildi Gunnarsdóttur í Sumarmálum á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Rokk-amma Íslands fagnar 70 ára afmæli