Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sýslumenn benda fólki á að útvega túlk á eigin kostnað

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - Kveikur
Það þarf að skýra hver réttindi þeirra sem ekki skilja íslensku eiga að vera í samskiptum við stjórnvöld. Þetta er álit umboðsmanns Alþingis. Álitið var gefið út í gær í kjölfar frumkvæðisathugunar. Þar kemur meðal annars fram að sýslumannsembættin bendi fólki á að útvega túlk á eigin kostnað.

Umboðsmaður Alþingis hóf athugun á stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld árið 2018 eftir að ábendingar og kvartanir höfðu borist.  

Sundurleit framkvæmd og óljóst hvort lögum sé fylgt 

Í álitinu kemur fram að umboðsmaður telji samskipti stjórnvalda við fólk sem ekki er íslenskumælandi vekja spurningar um hvort þau sinni nægilega vel þeim skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt lögum. Þá bendir hann á að framkvæmd stjórnvalda á þessu sviði virðist sundurleit og að óvissa virðist ríkja innan stjórnsýslunnar um skyldur til að veita þjónustu á öðrum tungumálum en íslensku.  

Þá bendir hann á að það sé hlutverk stjórnvalda og sérstaklega Alþingis að taka skýrari afstöðu til þess hverjar skyldur stjórnvalda eiga að vera þegar til þeirra leitar fólk sem ekki skilur íslensku. Nú kveði lög aðeins á um að stjórnvöld leiti leiða til að tryggja að þeir sem ekki skilja íslensku geti „fengið úrlausn erinda sinna og tileinkað sér efni skjala og skilríkja sem skipta hann máli“.  

Fólk eigi rétt á þátttöku í undirbúningi ákvarðana – líka þeir sem ekki skilja íslensku 

Í álitinu kemur einnig fram að samkvæmt reglum stjórnsýslulaganna og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins beri stjórnvöldum að veita fólki þátttöku í undirbúningi ákvarðana í málum er það varðar og upplýsa það um ákvarðanir og leiðbeina. Stjórnvöld virðist ekki hafa túlkað lögin á þann hátt að tryggja þurfi rétt þeirra sem ekki skilja íslensku.

Að mati umboðsmanns þarf að skýra þessar reglur á þann veg að stjórnvöldum beri að gæta þess að þeir sem ekki skilja íslensku fái úrlausn mála á tungumáli sem þeir skilja, enda sé rétturinn „til lítils ef þetta er gert á tungumáli sem viðkomandi skilur ekki“. Þannig séu til dæmis sambærilegar reglur túlkaðar í Danmörku.

Á hinum Norðurlöndunum er litið svo á að stjórnvöldum beri að gera nauðsynlegar ráðstafanir í samskiptum við einstaklinga sem ekki skilja eða tala opinber mál í löndunum, til að tryggja að þeir skilji upplýsingar frá stjórnvöldum.

Sýslumannsembættin veita almennt ekki túlka- eða þýðingarþjónustu 

Umboðsmaður tekur dæmi um það í álitinu að sýslumannsembættin láti almennt hvorki þýða gögn né veiti túlkaþjónustu. Samkvæmt svörum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu bendir embættið fólki á að útvega sér túlkaþjónustu á eigin kostnað. Í svörum til umboðsmanns vegna athugunarinnar vísaði tæplega helmingur sýslumannsembættanna til næstum tuttugu ára gamals bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þar sem fram kemur að: „þegar málshefjandi er ekki mælandi á íslensku virðist því einfaldlega mega gera honum ljóst að ekki sé tekið við erindum á erlendum tungumálum, nema svo vel vilji til að starfsmenn embættisins hafi þau á valdi sínu.“ 

Þá þurfi að ákveða með skýrari hætti hver beri ábyrgð á að þýða lög og reglur og tryggja að borgarar hafi forsendur til að gera sér grein fyrir eigin réttindum.