„Staðan til að takast á við gengisfall aldrei betri“

21.07.2020 - 21:57
Daníel Svavarsson, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans.
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Evran náði fyrir helgi sínu hæsta gildi gagnvart krónu í tæp sjö ár og hefur hún hækkað um yfir 20 krónur frá áramótum. Forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans segir ekki ástæðu til að óttast miklar verðhækkanir - aldrei hafi verið betri skilyrði til að takast á við stöðuna.

Í aðdraganda hrunsins og eftir það hækkaði evran upp úr öllu valdi þegar gengi krónunnar féll. Gengið náði svo jafnvægi en í nóvember 2013 kostaði evran ríflega 164 krónur. Síðan þá hefur hún ekki náð yfir hundrað og sextíu krónur - þar til í gær. Í dag er hún rétt undir þeim mörkum.

Gengi evru frá júlí 2008 til júlí 2020.
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

Daníel Svavarsson forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans segir hluta skýringarinnar liggja í markaðnum. „Gjaldeyrismarkaðurinn er frekar grunnur núna, það eru fáir kaupendur og fáir seljendur. Litlar hreyfingar á markaðnum geta orsakað ansi stórar sveiflur í genginu milli daga.“ Þannig hafi þessi viðskipti mun meira vægi núna, en þegar ferðamannastraumurinn var sem mestur.

Daníel segir samdrátt í útflutningi líka eiga þátt í lægra gengi. Það þýði vissulega hærra verð á innfluttum vörum, en minni eftirspurn á alþjóðavettvangi vegi þar á móti. Þá hjálpi til lítið launaskrið og rólegur fasteignamarkaður. „Þannig að við höfum ekki mikla áhyggjur af verðbólgunni akkúrat þessa stundina.“

Þannig að hinn almenni neytandi ætti ekki að finna mikið fyrir þessu í pyngjunni? „Nei það ætti ekki að vera.“

Til lengri tíma sér Daníel ekki fyrir sér kollsteypu í genginu. Meðal annars sé ekki útlit fyrir viðskiptahalla á þessu ári, og þá eru erlendar eignir meiri en skuldirnar. „Eins höfum við núna risavaxinn gjaldeyrisvaraforða sem Seðlabankinn nýtir ef ástæða er til að grípa inn í markaðinn ef það verða neikvæðar sveiflur. Við höfum aldrei verið betur stödd til þess að takast á við þetta en einmitt núna.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi