Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Mikil óvissa með bóluefni við veirunni

Sóttvarnalæknir segir margt enn á huldu með bóluefni gegn kórónuveirunni. Ekki sé ljóst hvort það sé öruggt og hvort unnt verði að fjöldaframleiða það svo allir fái. Þess þurfi líklega að bíða í eitt til tvö ár.

Upplýsingafundir almannavarna eru orðnir býsna margir eða áttatíu og sjö talsins. Vinsældir fundanna hafa þó dalað. Sunnudaginn fimmta apríl horfðu 30,3 prósent þjóðarinnar á upplýsingafundinn en fimmtudaginn níunda júlí voru það einungis fjögur komma fjögur prósent. Því kemur tilkynningin á fundinum í dag ekki sérlega á óvart:

„Við verðum hér aftur næstkomandi fimmtudag með upplýsingafund sem verður væntanlega sá síðasti í bili. Við tökum væntanlega frí í næstu viku, hugsanlega þarnæstu líka,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.

Um sextán hundruð sýni voru tekin á landamærunum í gær og rannsökuð. Fram til þessa hefur sóttvarnalæknir sagt að hámarksfjöldi sýna sem unnt sé að rannsaka séu tvö þúsund á dag en sú tala kann að breytast. Forstjóri Landspítalans segir ekki hægt að segja hver talan sé nú.

„Nei, í rauninni er það mjög erfitt af því að hún ræðst af því hver mörg sýni við keyrum saman,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Nú virðist sýnafjöldinn sem þarf að taka, skima og prófa að vera nálægt tvö þúsund markinu. Hefurðu áhyggjur af því að þetta sé komið upp í þak?

„Það kemur örugglega að því en það er ekki komið að því. Það var óvenjulega mikið í gær. Það var minna í fyrradag,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.

Stjórnvöld hafa að undanförnu leitað leiða til að tryggja að unnt sé að skima alla þá farþega sem þarf að skima. Ein leiðin er að hefta komu ferðamanna. Önnur að fjölga löndum á öruggum lista en fólk sem kemur frá löndum á listanum er undanþegið skimun. Páll segir að með nýjum tækjabúnaði sem verið sé að taka í gagnið aukist afkastageta í sýnarannsóknum.

Rannsóknir á bóluefni við COVID-19 í Bretlandi lofa góðu. Sóttvarnalæknir segir að ekki sé vitað hversu lengi bóluefni verki í fólki og hvort það komi í veg fyrir að fólk veikist.

„Og svo náttúrulega þriðja spurningin sem er stóra spurningin, er það hversu öruggt er þetta bóluefni.  Og svo er náttúrulega bara næsta spurning: hvernig tekst að framleiða þetta bóluefni í massavís og hverjir fá þetta bóluefni og það verður örugglega handagangur í öskjunni með það. Ég held að þetta geti tekið 1-2 ár í viðbót alla veganna á fá svona bóluefni svo við getum bólusett alla sem við vildum,“ segir Þórólfur.

Heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag að farið verði að tillögum sóttvarnarlæknis og samkomubann rýmkað fjórða ágúst þannig að eitt þúsund manns megi koma saman í einu í stað fimm hundruð. Þá verður opnunartími vínveitingastaða lengdur um klukkustund eða til miðnættis.