Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Lögmaður fær 1,5 milljónir vegna gæsluvarðhaldsvistar

Mynd með færslu
Steinbergur Finnbogason, í brúnum frakka, á leið úr héraðsdómi með skjólstæðingi sínum í öðru máli sem kennt er við verslanirnar EuroMarket. Mynd: Skjáskot - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun íslenska ríkið til að greiða Steinbergi Finnbogasyni, lögmanni, 1,5 milljónir króna í miskabætur fyrir húsleit og þriggja daga varðhald sem hann var látin sæta tengslum við farsakennt fjársvikamál skjólstæðings hans. Málið á hendur Steinbergi var látið niður falla en hann krafði íslenska ríkið um tíu milljónir.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að Steinbergur hafi legið undir grun um að veita sakborningi í fjársvikamálinu ráð við að reyna fela slóð fjármuna. 

Hann var handtekinn og færður í járnum á starfstöð héraðssaksóknara. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að notkun handjárna hafi verið óþarflega meiðandi fyrir Steinberg og til þess fallið að auka á miska hans. 

Dómurinn tekur jafnframt undir að ekki hafi verið gætt meðalhófs við haldlagningu og afritun gagna á skrifstofu Steinbergs. Þetta hafi verið sérlega íþyngjandi ráðstöfun fyrir hann og þá ekki síst gagnvart samstarfsfólki, skjólstæðingum sem og fjölskyldu. Hún hafi verið til þess fallinn að fela í sér verulegan miska fyrir lögmanninn.

Dómurinn segir jafnframt að mun fyrr hafi legið ljóst fyrir að framburður annarra sakborninga hafi ekki verið nægilega traustur til þess að réttlæta að sakamálið yrði ekki fyrr látið niður falla en raun bar vitni. 

Héraðsdómur telur það blasa við að umræddar ráðstafanir og framkvæmd þeirra hafi í mörgu tilliti reynst vera sérlega íþyngjandi fyrir Steinberg sem lögmann.  Lögmenn reiði sig öðru fremur á að mannorð sitt og traust samborgara. Þá liggi einnig fyrir að þetta hafi eðli málsins reynst honum sérlega erfitt persónulega í mörgu tilliti.

Fjársvikamálið sem um ræðir er nokkuð sérstakt – nígerískur huldumaður sem kallaður var Sly var sagður hafa komist inn í tölvupóstsamskipti útgerðarinnar Nesfisks í Garði við suður-kóreskan viðskiptavin, látið leggja tugi milljóna inn á reikninga samverkafólks síns hér á landi og síðan fjarstýrt þremur Íslendingum og einum samlanda sínum við að koma peningunum úr landi. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV