Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kökur og kaffi, sögur og ljóð

Mynd: Bókakaffið Selfossi / Bókakaffið Selfossi

Kökur og kaffi, sögur og ljóð

21.07.2020 - 15:58

Höfundar

Bókakaffið á Selfossi býður nú mánaðarlega til bókmenntadagskrár. Sú síðasta var sunnudaginn 12. júlí undir yfirskriftinni: „Dáið er allt án drauma“. Þar komu fram verðlaunaskáldin Brynjólfur Þorsteinsson og Harpa Rún Kristjánsdóttir, sem fluttu ný ljóð, og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir. Þær tvær síðarnefndu lásu upp úr síðustu bókum sínum og fluttu nýtt efni.

Meðal þeirra aðgerða sem hið opinbera stóð fyrir í kjölfar COVID-ástandsins var að auka svolítið fjárframlög til íslenskrar bókmenntamiðstöðvar. Þannig að nú, þegar samkomuhald með ákveðnum skilyrðum er aftur leyfilegt, er hægt að sækja þangað styrki til að mega greiða skáldum fyrir að koma fram.

Bjarni Harðarson, útgáfustjóri Sæmundar og eigandi bókakaffisins á Selfossi, stökk á þann vagn og býður nú í hverjum mánuði til bókmenntadagskrár. Í júní voru þýðingar á dagskránni. 12. júlí var svo komið að ljóðum. Í ágúst verða svo kinda- og lygasögur á dagskrá ásamt ævintýrum, og í september væntanleg stórvirki vetrarins.

Mynd með færslu
 Mynd: Bókakaffið á Selfossi
Dagskrá menningarsumarsins í Bókakaffinu á Selfossi sumarið 2020

Þann 12. júlí fluttu verðlaunaskáldin frá fyrra ári, þau Brynjólfur Þorsteinsson og Harpa Rún Kristjánsdóttir, nýjustu ljóð sín. Brynjólfur fékk í fyrra Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt Gormánuður. Í kjölfarið sendi hann svo frá sér sína fyrstu ljóðabók Þetta er ekki bílastæði. Harpa Rún fékk hlaut Verðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Edda. Bæði eru þau farin að safna efni í næstu bækur sem gestir Bókakaffisins á Selfossi fengu að heyra.

Auk þeirra Brynjólfs og Hörpu komu þær Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir fram á draumkenndum ljóðaviðburði Bókakaffisins á Selfossi. Báðar lásu þær úr síðustu bókum sínum og einnig alveg ný ljóð auk þess sem Steinunn Arnbjörg lék á selló og söng nokkur ljóð. Ljóðin flytur hún á nýjum diski með yfirskriftinni Ljúfa huggun sem kom út í fyrra.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Þýðandinn Gyrðir Elíasson

Pistlar

Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur – pistill I

Bókmenntir

„Þræðirnir sem ég næ í eru óttinn og kvíðinn“