Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ljósleiðari bilaði – Slæm nettenging í Hveragerði

20.07.2020 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: hveragerdi.is
Stór ljósleiðari sem tengir höfuðborgarsvæðið og Suðurland er bilaður, samkvæmt upplýsingum frá Mílu, heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem rekur ljósleiðarann.  

Talið er að ljósleiðarinn hafi slitnað á milli Breiðholts og Hveragerðis og að sögn Guðmundar Jóhannssonar, samskiptafulltrúa Símans, má ætla að nettenging liggi niðri sums staðar í Hveragerði. Nettengingar og símtengingar eru að miklu leyti varðar með varatengingu, en Guðmundur segir þó sennilegt að sumir á svæðinu nái engu netsambandi. Fyrirtækið Míla vinnur nú að viðgerðum.