Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Herjólfur siglir á áætlun eftir að verkfalli var aflýst

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vegagerðin
Áætlun Herjólfs verður með hefðbundnum hætti á morgun, en fyrirhuguðu þriggja sólarhringa verkfalli undirmanna í áhöfn skipsins, sem eru í Sjómannafélagi Íslands, var aflýst fyrr í kvöld, en það átti að hefjast á miðnætti.

Samkvæmt vefsíðu Herjólfs siglir skipið frá Vestmannaeyjum á morgun á þessum tímum. Klukkan 07:00, 09:30, 12:00, 17:00, 19:30 og 22:00. 

Fyrirhugaðar ferðir Herjólfs frá Landeyjahöfn eru klukkan 08:15, 10:45, 13:15, 18:15, 19:30 og 23:15.

Samkomulag tókst á milli deiluaðila; samningnefnda Herjólfs og Sjómannafélags Íslands, um að hefja viðræðuáætlun um gerð nýs kjarasamnings undirmanna um borð í Herjólfi. Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélagsins segir þetta „enga óskastöðu“, en áhrif verkfallsins á ferðaþjónustuna í Eyjum hafi vegið þungt. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir grundvöll fyrir áframhaldandi viðræðum.