Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.
Sjómannafélag Íslands hefur aflýst vinnustöðvun undirmanna um borð í Herjólfi sem hefjast átti á miðnætti í kvöld. Samkomulag hefur náðst á milli deiluaðila um viðræðuáætlun og á viðræðum að vera lokið fyrir 17. ágúst.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bergi Þorkelssyni, formanni Sjómannafélags Íslands.
Í viðræðuáætluninni felst meðal annars að skoða forsendur starfsaldurshækkana og vinnutímastyttingu á forsendum Lífskjarasamningsins, klára starfslýsingu þerna og háseta, skoða forsendur launahækkunar miðað við Lífskjarasamninginn með sérfræðingum og koma á hvíldarákvæðum í samræmi við alþjóðalög.
Boðað hafði verið þriggja sólarhringa verkfall undirmanna um borð í Herjólfi sem eru í Sjómannafélagi Íslands. Það hefði verið þriðja vinnustöðvunin á jafnmörgum vikum, en sú fyrsta stóð í einn sólarhring og sú næsta í tvo.