Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fækkað í sveit gæslumanna krúnudjásnanna

20.07.2020 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Útlit er fyrir að fækka þurfi gæslumönnum krúnudjásnanna í Tower of London vegna áhrifa COVID-19 farsóttarinnar á ferðamennsku í Bretlandi. Samtök sem sjá um rekstur safnsins sem hýsir djásnin segist ekki eiga annars úrkosti en að draga úr rekstrarkostnaði. Tekjur hafi dregist stórlega saman vegna fækkunar ferðafólks.

Gæslumennirnir gátu óskað eftir því að fá frí frá störfum, en þar sem litlar líkur eru á að ferðafólki fjölgi á næstunni blasa uppsagnir við. Það verður í fyrsta sinn síðan sveitin var stofnuð á fimmtándu öld af Hinrik konungi sjöunda. Henni var einni öld síðar falið að gæta gripanna. Safnið var lokað í tæpa fjóra mánuði fyrr á árinu vegna faraldursins.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV