„Eldgos á Reykjanesskaga ólíklegt á næstunni“

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Ólíklegt er að eldgos verði á Reykjanesskaga næstu ár eða áratugi þar sem enn er mikil spenna í jarðskorpunni. Þetta er mat Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings. Hann segir ómögulegt að segja til um hvað skjálftahrinan þar stendur lengi.

Miklar jarðhræringar hafa verið í nágrenni við Grindavík frá áramótum. Skjálftavirkni færðist verulega í aukana á laugardaginn og tveir skjálfar, fimm að stærð, urðu við Fagradalsfjall í gærkvöld og í morgun. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir það ekki nýtt að það skjálfi á Reykjanesskaga, enda sé hann á flekaskilum, þar sem hreyfing hlaði upp spennu sem losni í jarðskjálftum.

„Það nýja í þessari hrinu er kvikuvirkni. Hún býður upp á þann möguleika að eitthvað kunni að vera um eldgos í tengslum við þessa umbrotahrinu sem nú er búin að standa í sjö mánuði.“

Páll telur ólíklegt að þessi virka kvika nái upp á yfirboðið eins og staðan er núna. „Spennan í jarðskorpunni er sennilega nokkuð há eins og sést á jarðskjálftunum. Meðan gliðnunarspennan er há í jarðskorpunni þá á kvikan erfitt með að komast upp á yfirborðið. Jarðskorpan er bara ekki kvikuheld ennþá.“

Páll segir slíkt taka nokkurn tíma og það sé alls ekki víst að virknin standisvo lengi. Erfitt sé að segja til um hversu lengi þessi virkni stendur - hún gæti alls eins hætt á morgun. „En það getur líka þróast á ýmsa vegu en líkur eru samt á því að það verða fyrst og fremst innskot, gangar, spunguhreyfingar í ár, jafnvel áratugi áður en til verulegra eldgosa kemur.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi