Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ekkert samkomulag í Brussel

epa08551307 (L-R) Germany's Chancellor Angela Merkel, French President Emmanuel Macron, Finland's Prime Minister Sanna Marin and European Council President Charles Michel greet each other at the start of an EU summit at the European Council building in Brussels, Belgium, 17 July 2020. European Union nations leaders meet face-to-face for the first time since February to discuss plans responding to coronavirus crisis and new long-term EU budget at the special European Council on 17 and 18 July.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ / POOL
Leiðtogar Þýskalands, Frakklands, Finnlands og leiðtogaráðs ESB heilsast við komuna til Brussel. Mynd: EPA-EFE - EPA
Enn hefur ekki náðst samkomulag meðal leiðtoga Evrópusambandsríkja um fyrirkomulag bjargráðasjóðs vegna COVID-19 farsóttarinnar.

Tekist var á um leiðir, langt fram yfir miðnætti, í tilraun til að rjúfa það þrátefli sem viðræðurnar eru komnar í.

Leiðtogunum var heitt í heitt í hamsi. Emmanuel Macron forseti Frakklands ávítaði forystufólk Hollands og Austurríkis harðlega fyrir að krefjast þess að bjargráðasjóðurinn væri að mestu í formi lána. Hann hótaði að yfirgefa fundinn, frekar en að standa að samkomulagi sem honum hugnaðist ekki.

Charles Michel forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins beindi málamiðlunartillögu að „hinum sparsömu” ríkjum Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Austurríki og Hollandi. Hann stakk upp á að styrkhluti framlags Evrópusambandsríkjanna færi niður úr 500 milljörðum evra niður í 400.

Auk þess lagði hann til að sá hluti sem væri lánsfé hækkaði í 350 milljarða evra úr 250. Michel minnti viðstadda á að nú væru 600 þúsund manns látin af völdum kórónuveirufaraldursins, þar af 200 þúsund í Evrópu einni. Hann sagði mikilvægt að byggja upp traust á þessum erfiðu tímum.

Fulltrúi Svía kvaðst aðeins geta fallist á að styrkirnir næmu 350 milljörðum evra, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði snúa meðal annars að auknum metnaði við að ná árangri í loftlagsmálum auk þess sem ríki sem ekki fara að lögum gætu ekki þegið fjármuni frá Evrópusambandinu.

Charles Michel ásamt Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Emmanuel Macron reyndu að finna málamiðlun sem sparsömu ríkin og þau skuldugri gætu fallist á, án árangurs.

Viðræðum verður fram haldið klukkan tólf í dag, mánudaginn 20. júlí.