Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þingkosningar í Sýrlandi

19.07.2020 - 08:02
Mynd með færslu
Mynd sem sýrlenska ríkisfréttastofan SANA birti í dag og segir sýna almenna borgar á flótta frá einu hverfanna sem stjórnarherinn hafi náð af uppreisnarmönnum. Mynd: EPA - SANA
Búist er við að Baath flokkur Bashars al-Assad Sýrlandsforseta og bandamenn hans fái meirihluta atkvæða í þingkosningum sem haldnar eru í landinu í dag.

Á áttunda þúsund kjörstaða eru á þeim svæðum sem Sýrlandsstjórn ræður, þar á meðal þeim sem hafa verið höfuðvígi stjórnarandstöðunnar. Stjórn Assads hefur með stuðningi Rússa náð að leggja undir sig að nýju talsverðan hluta landsins sem hefur verið hrjáð af blóðugri borgarastyrjöld frá árinu 2011.

Í höfuðborginni Damaskus þusti almenningur á kjörstaði, margt með grímu fyrir vitum til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar. Fréttaritari AFP fréttastofunnar ræddi við Hana Sukriye, 29 ára gamla konu sem var að kjósa í fyrsta sinn á ævinni.

Hún sagði atkvæði sitt eitt og sér ekki breyta miklu en ef allir legðust á eitt við að velja verðuga fulltrúa á þingið gætu orðið breytingar í landinu.

Kosningunum í Sýrlandi hefur tvisvar verið frestað frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Það fólk sem nær nú kjöri á Sýrlandsþing stendur frammi fyrir miklum áskorunum, byggja þarf upp innviði, endurreisa efnahaginn og koma í veg fyrir hungursneyð vegna gríðarlegra verðhækkana á helstu nauðsynjavörum.