Bættu við ráðgjafa í byrjun faraldursins
Síðastliðnar vikur hafa óvenjumargir leitað á geðdeild Landspítalans, frá þessu var greint í fréttum síðustu viku. Samtök sem styðja við fólk með geð- og fíknivandamál verða líka vör við að fleiri hafi þörf fyrir aðstoð.
„Við finnum fyrir því að fólk á erfiðara með að fá aðstoð, það er álag alls staðar, bæði á geðdeildunum og á heilsugæslunni,“ segir Sigríður Gísladóttir, varaformaður Geðhjálpar.
Strax í upphafi faraldursins varð starfsfólk Geðhjálpar vart við aukna eftirspurn eftir þjónustu. Þá var einn ráðgjafi starfandi hjá samtökunum og til að bregðast við var ákveðið að bæta við öðrum. Það er nóg að gera hjá báðum og fólki býðst að fara í nokkur viðtöl. Samtökin eru því í raun orðin meðferðarúrræð, þó ekki sé tekið gjald fyrir. Til samtakanna leitar nú nýr hópur fólks sem glímir við andlega vanlíðan en ekki beinlínis geðrænan vanda. „Þetta er hópur sem við höfum ekki séð áður. Á sama tíma er líka að stækka sá hópur sem hefur verið í þjónustu og notandi í heilbrigðiskerfinu en hefur dottið úr þjónustunni þegar faraldurinn byrjaði. Það fólk er mikið einangrað og veit í raun ekki hvert það á að leita,“ segir Sigríður og bætir við að það geti reynst hættulegt að skerða þjónustu við veikt fólk.
Mikið að gera á Vogi