Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þeir sem misstu tökin í faraldrinum leita aðstoðar núna

19.07.2020 - 19:25
Mynd: Pexels - Andrew Neel / Pexels - Andrew Neel
Tvöfalt fleiri hafa leitað til Geðhjálpar í ár en á sama tíma í fyrra. Samtökin vilja að geðheilbrigðiskerfið verði tilbúið að takast á við mikinn skell í haust.  Á Vog leitar nú fólk sem missti tökin á neyslunni í faraldrinum.

Bættu við ráðgjafa í byrjun faraldursins

Síðastliðnar vikur hafa óvenjumargir leitað á geðdeild Landspítalans, frá þessu var greint í fréttum síðustu viku. Samtök sem styðja við fólk með geð- og fíknivandamál verða líka vör við að fleiri hafi þörf fyrir aðstoð. 

„Við finnum fyrir því að fólk á erfiðara með að fá aðstoð, það er álag alls staðar, bæði á geðdeildunum og á heilsugæslunni,“ segir Sigríður Gísladóttir, varaformaður Geðhjálpar. 

Strax í upphafi faraldursins varð starfsfólk Geðhjálpar vart við aukna eftirspurn eftir þjónustu. Þá var einn ráðgjafi starfandi hjá samtökunum og til að bregðast við var ákveðið að bæta við öðrum. Það er nóg að gera hjá báðum og fólki býðst að fara í nokkur viðtöl. Samtökin eru því í raun orðin meðferðarúrræð, þó ekki sé tekið gjald fyrir. Til samtakanna leitar nú nýr hópur fólks sem glímir við  andlega vanlíðan en ekki beinlínis geðrænan vanda. „Þetta er hópur sem við höfum ekki séð áður. Á sama tíma er líka að stækka sá hópur sem hefur verið í þjónustu og notandi í heilbrigðiskerfinu en hefur dottið úr þjónustunni þegar faraldurinn byrjaði. Það fólk er mikið einangrað og veit í raun ekki hvert það á að leita,“ segir Sigríður og bætir við að það geti reynst hættulegt að skerða þjónustu við veikt fólk. 

Mikið að gera á Vogi

 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Sigríður Gísladóttir

Þjónusta skertist víða á meðan faraldurinn reið yfir hér. Til dæmis var göngudeildarþjónustu á Vogi einungis sinnt með fjarviðtölum. Færri sóttust þá eftir að leggjast inn.  Síðustu vikur hefur fjölgað í hópi þeirra sem leita aðstoðar á Vogi. „Það var mikið að gera hjá okkur í síðustu viku og margir að banka á dyrnar en fyrr í sumar var talsvert af fólki sem kom ekki í innlagnir þó þau ættu tíma, það er greinilega að breytast núna,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Valgerður Rúnarsdóttir.

 

Sumt fólk missti tökin á neyslunni þegar daglegt líf þess raskaðist í faraldrinum. Valgerður segir nokkuð um að það hafi reynst fólki erfitt að vinna heima. 

Óttast stóraukið álag

Sigríður óttast að álagið á geðheilbrigðiskerfið aukist til muna í haust, þegar margir verða atvinnulausir. „Ég hugsa að það verði mjög mikið álag og ég held við þurfum öll að vera tilbúin að bregðast við því.“

Valgerður ætlar að fylgjast vel með þróuninni. „Við þurfum allavega að hafa augun opin fyrir því hvort vandinn aukist í kjölfarið, það er nú oft þegar þessum hremmingum sleppir sem vandinn kemur fram.“

Hásumar og minni þjónusta í boði

Það er hásumar. Starfsemi Vogs liggur niðri að hluta og Geðhjálp lokar næstu tvær vikurnar, Sigríður bendir fólki í neyð á Pieta-samtökin sem svara í símann allan sólarhringinn. 

Gripið var til sumarlokana á geðdeild en pláss opnuð aftur þegar þörf krafði. Nanna Briem, forstöðumaður, segir að staðan sé metin dag frá degi. Allir sem þurfi fái hjálp. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV