Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir útbreiðslu COVID-19 í Hong Kong stjórnlausa

19.07.2020 - 09:16
Erlent · Asía · COVID-19
epa08459379 Hong Kong Chief Executive Carrie Lam speaks during a press conference in Hong Kong, China, 02 June 2020. Lam said during the press conference that many Hong Kong people are living in fear as she explained why Hong Kong needs the national security legislation, which is being drawn up by Beijing.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
Carrie Lam á fundi með fréttamönnum í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Carrie Lam, æðsti stjórnandi Hong Kong, tilkynnti í dag um hertar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Fólk verður nú að nota grímur innandyra á opinberum stöðum og opinberir starfsmenn sem sinna ekki nauðsynlegum störum verða nú að sinna vinnu heima hjá sér. „Ég held að ástandið sé orðið mjög alvarlegt og það eru engin merki þess að við séum að ná stjórn á því,“ sagði Lam.

Rúmlega hundrað tilfelli COVID-19 veikinnar greindust í gær í Hong Kong, fleiri en nokkru sinni fyrr. Unnið er að því að byggja tvö þúsund einangruð hjúkrunarrými til að bregðast við faraldrinum. Sú aðstaða verður á yfirgefnu landsvæði við hlið skemmtigarðs Disney-fyrirtækisins.

Hertar aðgerðir í baráttunni gegn kórónuveirufaraldurinn eru viðbót við aðgerðir sem Lam kynnti í síðustu viku. Samkvæmt þeim varð að loka ölstofum, næturklúbbum og líkamsræktarstöðvum auk fleiri fyrirtækja og fólki var skipað að vera með grímu í almenningssamgöngum. Veitingastaðir mega ekki lengur bjóða upp á mat í húsakynnum sínum heldur verður fólk að sækja matinn eða fá hann heimsendan. Lam sagði í dag að gripið verði til fleiri ráðstafana til að sporna gegn útbreiðslu veikinnar ef daglegum tilfellum fjölgar áfram.