Mynd: Colin / Wikimedia Commons / CC B - Wikimedia Commons
Andrei Kelin sendiherra Rússlands í Bretlandi segir útilokað að Rússar hafi liðsinnt tölvuþrjótum við innbrot í tölvukerfi rannsóknarstofa sem vinna að þróun bóluefnis gegn Covid-19.
Bretar og bandamenn þeirra hafa beint spjótum sínum að Rússum eftir að upp komst að hakkarahópur sem kallar sig ATP29 hefði gert atlögu að slíkum rannsóknarstofum.
Sendiherrann segir í samtali við Andrew Marr á BBC sjónvarpsstöðinni að ekkert vit væri í ásökununum. Hann kveður Rússa enga aðild vilja eiga að tölvuinnbrotum og hann hefði fyrst heyrt af þeim í breskum fjölmiðlum.
Kelin segir Rússa vilja miklu fremur bæta samskiptin við Breta en þau hafa verið stirð frá því að stjórnvöld í Moskvu voru sökuð um að eiga aðild að morðtilraun á gagnnjósnaranum Sergei Skripal árið 2018.