
Ræddi kórónuveiru og jöfnuð á Skálholtshátíð
Hátíðarmessa var haldin í Skálholtskirkju í dag þar sem Kristján Björnsson Skálholtsbiskup predikaði og þjónaði fyrir altari ásamt Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands. Biskup og forsætisráðherra fluttu svo ávarp og erindi á hátíðarsamkomu sem haldin var síðar um daginn.
Katrín gerði kórónuveiruna, loftslagsvána, velsæld, jöfnuð og eigin fótbrot að umfjöllunarefni í hátíðarræðunni.
„Ein veira getur ferðast um heiminn á ógnarhraða og sett samfélög okkar á hliðina. Það er okkur erfitt að geta ekki leyst veirumálið með einföldum hætti – að það sé enn hvorki komið bóluefni eða lyf,“ sagði ráðherra. Sex mánuðir séu stuttur tími í hinu stóra samhengi þó landsmönnum hafi mögulega liðið eins og Covid-tíminn hafi verið endalaus.
Skammtíma- og langtímasjónarmið takist líka á í baráttunni við loftslagsvána og kórónuveiruna, sem og í fleiri málum. „Það virðist stundum góð lausn ýmsum vanda að kaupa sér stundargleði og staldra aldrei við,“ sagði Katrín og kvað landsmenn krefjast snöggra lausna á öllum sínum vanda. Vonbrigðin séu líka mikil þegar svarið kemur ekki strax. „Ég fann það sjálf þegar mér var sagt um daginn að ég væri sem sprungu í lærbeini og nú væri ekkert annað að gera en að bíða og slaka á.“
Varpaði ráðherra því næst fram þeirri spurningu hvort ekki mætti draga lærdóm af því hvernig hægðist á lífinu með faraldrinum, sem þó hefði líka varpað ljósi á misréttið í heiminum.
Það hafi hins vegar sannfært hana enn meira um að jöfnuður sé límið í íslensku samfélagi.