Nýtt frá Herra Hnetusmjöri, Hjálmum og Mammút

Mynd: Benni Vals / record records

Nýtt frá Herra Hnetusmjöri, Hjálmum og Mammút

19.07.2020 - 14:00

Höfundar

Þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar sé á ferð og flugi um landið í alls konar hýsum og tjöldum þá er ekki að sjá að blessað tónlistarfólkið hafi sett tásur upp í loft. Það er af nógu að taka í Undiröldunni og það má með sanni segja að færri komist að en vildu.

Hjálmar - Segðu já

Á föstudag kom út nýtt lag frá Hjálmum sem heitir Segðu já en það lag verður að finna á nýrri plötu frá sveitinni sem kemur í haust. Sú er kannski ekki alveg hefðbundin því hún er endurgerð á plötu sveitarinnar Uniimog sem kom út árið 2014 og var skipuð þeim Sigga, Steina og Kidda úr Hjálmum ásamt Ásgeiri Trausta.


Herra Hnetusmjör - Stjörnurnar

Meira reggí, nú frá skærustu stjörnu Kópavogs Herra Hnetusmjöri sem hefur skinið yfir Hamraborginni síðustu ár. Um lagið segir Hnetusmjörið að hann hafi langað til að detta í sumarlegan og poppaðann reggífíling. Lagið vann hann með Ásgeiri Orra.


Dillalude - Running

Dillalude hefur sent frá sér 90's Pharcyde slagarann Running en sveitin er íslensk og sérhæfir sig í því að flytja og túlka tónlist J-Dilla í lifandi tónum á sviði. J-Dilla, sem hét réttu nafni James Dewitt Yancey, lést aðeins 32 ára árið 2006 eftir langvinn veikindi. Andlát hans var mikið áfall fyrir aðdáendur hipp hopps um heim allan. J-Dilla er almennt talinn einn mikilhæfasti taktsmiður í sögu rapptónlistar.


Mammút - Sun and Me

Ný plata frá Mammút kemur út þann 23. október, fimmta plata sveitarinnar. Á föstudag fögnuðu aðdáendur þegar tveggja laga smáskífa með dúkristu kom út sem inniheldur lagið Sun and Me.


Haugar - Hvaða fólk býr í svona blokk?

Nýstofnaða hljómsveitin Haugar gaf út fyrsta lag sitt á dögunum en það heitir Hvaða fólk býr í svona blokk? Liðsmenn sveitarinnar eru þó engir nýgræðingar í undirheimarokki því sveitina skipa þeir Árni Þór Árnason á gítar, Birkir Fjalar Viðarsson á trommur, Markús Bjarnason syngur og Ólafur Örn Josephsson á gítar og bassa, auk þess sem Örn Ingi Ágústsson spilar á gítar.


Ari Árelíus - Miðnætti (Shakti)

Tónlistarmaðurinn, flippkisinn og Árbæingurinn Ari Árelíus hefur gefið út skynvillubræðingin Miðnætti en fyrr á árinu gaf hann út lagið Hringrás sem er eins og það fyrrnefnda instrumental sækadelía.


Inspector Spacetime - Teppavirki

Hljómsveitin Inspector Spacetime er ættuð úr Menntaskólanum í Hamrahlíð og er skipuð þeim Agli Gauta Sigurjónssyni, Vöku Agnarsdóttur og Elíasi Geir Óskarssyni. Hljómsveitin var stofnuð á tímum COVID og spilar hressandi skandinavískt rafpopp.


Oscar Leone - Lion

Tónlistarmaðurinn, leikarinn og ljónið Pétur Óskar Sigurðsson, sem starfar við tónlist sem Oscar Leone, hefur sent frá sér lagið Lion sem fjallar að sjálfsögðu um lífið og hverfular ástir ljónsins.