Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Mjög ánægð með samninginn“

19.07.2020 - 04:00
Mynd: Kristján Þór Ingvarsson / RÚV
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segist vera mjög ánægð með nýjan kjarasamning sem undirritaður var við Icelandair um tvö leytið í nótt. Hún bindur vonir við að félagsmenn samþykki samninginn. Uppsagnir hafa verið dregnar til baka.

Í gær hættu stjórnendur Icelandair viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og tilkynntu að öllum flugfreyjum yrði sagt upp. Félagsmenn Flugfreyjufélagsins boðuðu í kjölfarið allsherjarvinnustöðvun sem hefði átt að hefjast fjórða ágúst yrði það samþykkt. Flugfreyjufélagið óskaði hins vegar í dag eftir fundi hjá ríkissáttasemjara og eftir langan fund voru kjarasamningar undirritaðir í nótt.

„Við byggðum á þeim samningi sem við undirrituðum í júní. Það var samið um þau ákvæði sem ágreiningur hafði verið um og ég vænti þess að geta kynnt þennan samning á góðan hátt til okkar félagsmanna í vikunni,“ segir Guðlaug.

Málamiðlun náðist um aukafrídaga fyrir flugfreyjur eldri en 60 ára og um svokallaða sex daga reglu sem snýr að því að ekki megi setja flugfreyju á skrá fleiri en sex daga samfellt. Þá er kveðið á samstarf um aukna hagræðingu í nýja samningnum.

Hún segir að hljóðið í félagsmönnum Flugfreyjufélagsins hafi verið afar þungt í dag og í gær. „Þetta eru búnir að vera mjög erfiðir dagar. Nú fer vonandi að sjást til sólar og við förum að horfa á bjartari tíma," segir Guðlaug.

Flugfreyjur kolfelldu kjarasamning við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair í síðustu viku.  72,65 prósent greiddu atkvæði gegn honum. Aðspurð hvort að hún telji það breytast núna, þar sem nýji samningurinn byggist að miklu leyti á þeim fyrri, segist hún vona að félagsmenn kynni sér málið vel og taki upplýsta ákvörðun í kjölfarið. Sjálf sé hún mjög ánægð með samninginn.