Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Guðrún Brá og Hákon Örn sigruðu á Hvaleyri

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

Guðrún Brá og Hákon Örn sigruðu á Hvaleyri

19.07.2020 - 19:27
Íslandsmeistarinn úr Keili, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, sigraði í Hvaleyrarbikarnum í golfi með sannfærandi hætti á Hvaleyrarvelli í dag. Guðrún Brá lék holurnar 36 á samtals þremur höggum undir pari. Hún lék fyrri hringinn á 69 höggum í morgun og hinn síðari nú seinni partinn á 70 höggum.

Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar kom næst en hún var fimm höggum á eftir Guðrúnu. Lék hún hringina á 77 og 67 og bætti sig því um tíu högg á milli hringja. Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR var þriðja á fjórum yfir pari og þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Ásdís Valtýsdóttir, báðar úr GR, lék á samtals sjö yfir pari. 

Í karlaflokki sigraði Hákon Örn Magnússon úr GR eftir spennandi keppni. Hann lék á 67 höggum, fjórum undir pari, í morgun og lék svo síðari hringinn á pari. Hann endaði einu höggi á undan Guðmundi Rúnari Hallgrímssyni úr GS og tveimur höggum á undan Andra Má Óskarssyni úr Golfklúbbi Selfoss.