Mynd: Alma Ómarsdóttir

Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.
Tveir snarpir skjálftar við Grindavík
18.07.2020 - 06:51
Tveir jarðskjálftar af stærðinni 3,2 og 4,1 riðu yfir með skömmu millibili laust fyrir klukkan sex í morgun.
Skjálftarnir eiga upptök sín rétt norðan Grindavíkur, skammt frá Bláa lóninu. Þeir fundust báðir vel í Grindavík og í Keflavík.
Fram kemur í máli náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands að um fjörutíu smærri eftirskjálftar hafi mælst.
Þensla er á svæðinu umhverfis Grindavík, kvikuinnskot neðanjarðar, og eru skjálftarnir nú hluti af þeirri skjálftahrinu sem staðið hefur yfir frá því í vor.
Land heldur áfram að rísa en undanfarna daga hefur þó allt verið með fremur kyrrum kjörum. Náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar segir þó að ekki megi lesa nokkuð sérstakt í skjálftahléið en býst við áframhaldandi jarðskjálftum.