Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tekist á um notkun andlitsgríma vestra

18.07.2020 - 02:16
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett RÚV - AP/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lofað Bandaríkjamönnum að þeim verði ekki fyrirskipað að nota andlitsgrímur til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar.

Með þessu er forsetinn að bregðast við brýningu Dr. Anthony Fauci til ráðamanna um að beita öllum brögðum til að fá almenning til að nota grímur.

Trump sjálfur sást ekki með andlitsgrímu opinberlega fyrr en á laugardaginn var. Bandaríkjaforseti sagði í viðtali við Fox fréttastofuna að bandarískur almenningur hefði ákveðin þegnréttindi og því væri ekki hægt að skylda hann til að bera grímur.

Samflokksmaður forsetans, Brian Kemp ríkisstjóri Georgíu hefur hvatt íbúa ríkisins til að ganga með andlitsgrímur næsta mánuðinn. Forystufólk í fleiri ríkjum er að íhuga að skylda fólk til grímunotkunar.

Undanfarinn sólarhring greindust tæplega 78 þúsund ný tilfelli kórónuveirusmita í Bandaríkjunum og 927 andlát voru skráð.