Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ráðherra fær heimild til að banna tæki frá Huawei

Samgönguráðherra fær heimild til þess að banna fjarskiptatæki sem framleidd eru utan NATO- eða EES-landa, ef frumvarp um fjarskiptalög verður samþykkt óbreytt. Forsendur bannsins verða ekki feldar undir upplýsingalög.

Samgönguráðherra lagði fram frumvarp til laga um fjarskipti á Alþingi í vor. Þar er kveðið á um heimild handa samgönguráðherra til þess að setja reglugerð sem bannar tæki frá Huawei eða öðrum fyrirtækjum sem framleidd eru utan NATO- eða EES-ríkjanna. Ráðherra þyrfti, áður en reglugerðin er sett, að afla sér umsagna frá dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra.

Umsagnirnar yrðu undanþegnar upplýsingarétti, samkvæmt frumvarpinu, og þess vegna gætu upplýsingar um forsendur hugsanlegs banns orðið torsóttar fyrir fjölmiðla.

Bæði Nova og Vodafone ætla að kaupa tæki af Huawei til uppbyggingar fimmtu kynslóðar farnetsins – 5G – hér á landi. Síminn ætlar að kaupa tæki af hinu sænska Ericsson. Í athugasemdum um frumvarpið er bent á að beiting þessa bannákvæðis geti raskað samkeppnisstöðu á fjarskiptamarkaði.

„Þetta mundi koma niður á samkeppnishæfni samfélagsins til lengri tíma. Þau lönd sem takmarka ekki hverjir geta framleitt og byggt upp kerfi hjá sér munu þá taka fram úr hinum, sem takmarka það, og vera þá með ódýrari, betri og þróaðari kerfi. Ef maður horfir á þessa margumtöluðu fjórðu iðnbyltingu þá byggir hún ekki síst á fjarskiptum. Þá myndu þau lönd sem væru opin hvað þetta varðar taka fram úr hinum.“

Heldur þú að íslensk stjórnvöld myndu beita svona ákvæði ef þau væru til í lögum? „Það er einhver ástæða fyrir því að þau setja þetta í lög, það er væntanlega vegna þess að þau telja sig einhverntíma þurfa að beita þessu. Það er ákveðin hætta,“ segir Heiðar.

„Við getum ekki gleymt því að við erum lítil eyja hérna, lítið samfélag, og það eru stórir kraftar sem herja á okkur erlendis frá, alþjóðlegir kraftar. Og það getur verið að menn láti undan í slíku. Og hvað þetta varðar sérstaklega þá er þetta náttúrlega bara utanríkisstefna frá Trump.“