Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Pílagrímar ganga á Skálholtshátíð

18.07.2020 - 12:26
Þátttakendur í Skálholti í sögugöngu á Þorláksleið
 Mynd: Aðsend
Skálholtshátíð er haldin nú um helgina og er þar meðal annars minnst þess að 300 ár eru frá andláti Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups.

„Það er mjög vegleg hátíð núna,“ segir Kristján Björnsson Skálholtsbiskup og kveður dagskrána vera fjölbreytta að þessu sinni.

Boðið var upp á sögugöngu í gærkvöldi og undanfarna daga hafa hópar frá Bæ í Borgarfirði og frá Reynivöllum í Kjós gengið pílagrímsgöngu sem endar á morgun í Skálholtskirkju. Ganga hópsins í morgun hófst með fararblessun Skálholtsbiskups í Þingvallakirkju, þar sem hóparnir sameinuðust og ganga saman að Neðra Apavatni.

„Þau voru að fara út í rokið alveg óbanginn,“ segir Kristján og kveður gula veðurviðvörun hvorki hafa áhrif á pílagríma né önnur hátíðarhöld.

Eftir hádegi í dag verður boðið upp á fornleifagöngu um minjasvæðið í Skálholti og tónleika Skálholtskórsins undir stjórn Jóns Bjarnasonar.

Á morgun klukkan 14 verður svo haldin hátíðarmessa í kirkjunni. Þar mun Skálholtsbiskum predika og þjóna fyrir altari ásamt Agnesi M. Sigurðardóttur biskupi Íslands.

Klukkan 16 verður svo boðið til hátíðarsamkomu í kirkjunni, en þar mun biskup Íslands flytja ávarp og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra halda hátíðarerindi.

Anna Sigríður Einarsdóttir