Bóksali í kulda og trekki

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd

Bóksali í kulda og trekki

18.07.2020 - 16:06

Höfundar

Fúllyndi bóksalinn Shaun Blythell er óvæginn í lýsingum sínum á samstarfsfólki sínu og gestum bókabúðar sinnar í bókinni Dagbók bóksala. Dómsdagsspár um dauða bókarinnar og bókabúða hanga þá yfir bóksalanum sem berst með kjafti og klóm gegn stóru bókabúðakeðjunum, rafbókavæðingunni og ekki síst Amazon-risanum í þessari fremur óvæntu metsölubók, segir Maríanna Clara Lúthersdóttir gagnrýnandi.

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar: 

Dómsdagsspár um dauða bókarinnar og jafnvel enn frekar um dauða bókabúða hanga yfir Shaun Bythell þar sem hann situr einn og norpandi yfir köldustu vetrarmánuðina í fornbókabúðinni sinni í smábænum Wigtown í Skotlandi.

Suma daga liggur við að enginn raski ró hans annar en samstarfskonan Nicky, sem býr 25 kílómetra frá Wigtown en keyrir þaðan tvisvar til þrisvar í viku til að vinna í búðinni. Áður fyrr var starfsfólk mun fleira en nú dugar innkoman ekki til að borga starfsmanni í fullu starfi.

Bókin er allt annað en sorgleg

Þetta hljómar kannski fremur dapurlega en bókin er þó allt annað en sorgleg, raunar er tónninn léttur og frásögnin full af húmor, þótt vissulega sé hann fremur svartur á köflum.

Í bókinni rekur Bythell daglegt amstur í fornbókabúðinni í eitt ár, frá febrúar 2014 til febrúar 2015. Hann keypti verslunina árið 2001, rétt rúmlega þrítugur að aldri, og þraukaði gegnum kreppuna 2008, en nú er bara að vona að heimsfaraldur COVID-19 gangi ekki endanlega frá þessari stærstu fornbókaverslun Skotlands.

Það er Ugla sem gefur út þessa fremur óvæntu metsölubók og Snjólaug Bragadóttir sem þýðir. Þýðingin rennur yfirleitt prýðilega í gegn en á stöku stað koma undarlegar setningar þar sem þýðandinn hefur sleppt því að þýða eitthvað orðagrín, og þá á kostnað skiljanleika frásagnarinnar. Þá er, eðli málsins samkvæmt, mikið rætt um bækur og sumir bókatitlar þýddir yfir á íslensku og er þá ekki alltaf ljóst af samhenginu við hvaða bækur er átt.

Berst með kjafti og klóm gegn þróuninni

Eins og allir sjálfstætt starfandi bóksalar berst Bythell með kjafti og klóm gegn stóru bókabúðakeðjunum, rafbókavæðingunni og síðast en ekki síst gegn Amazon-risanum sem er á góðri leið með að þurrka út bókabúðir heimsins.

Höfundurinn talar tæpitungulaust um hvernig landslagið í bóksölu hefur gjörbreyst á undanförnum áratugum og hvernig baráttan verður sífellt vonlausari; hvernig er hægt að fá fólk til að kaupa gamlar bækur þegar hægt er að finna þær ókeypis rafrænt á netinu? Hvernig er hægt að undirbjóða risa sem hefur öll tögl og haldir í bæði sölu bóka og dreifingu þeirra, um allan heim?

Það er auðvitað ekki hægt en einhvern veginn hefur Bythell samt sem áður tekist að skrifa þó nokkuð skemmtilega bók um allar litlu orrusturnar í lífi bóksalans, jafnvel um þær sem hann tapar. Hann segir frá furðulegu fólki sem ratar inn í búðina sem og ekki síður furðulegu starfsfólki búðarinnar sjálfrar.

Lýsingar hans á viðskiptavinum eru raunar svo litríkar og sláandi að einhverjir hljóta að veigra sér við að fara inn í verslunina af ótta við að verða hvössum skrifum eigandans að bráð en þó eru þeir mögulega fleiri sem hefðu bara gaman af slíku ævintýri. Áður en Bythell skrifaði bókina hélt hann raunar út út sambærilega litríkum lýsingum á Facebook-síðu búðarinnar, enda heyrir hann eitt sinn unga konu hvísla að kærastanum sínum „Ekki segja neitt heimskulegt, hann setur það á Facebook“.

Þróunarkenning Darwins og Biblían enda í skáldsagnadeildinni

Af starfsfólki búðarinnar ber hæst áðurnefnda Nicky en lýsingarnar á henni eru á köflum afar skrautlegar. Hún er vottur Jehóva, afskaplega nýtin og með mjög ákveðnar skoðanir um allt frá því hvernig eigi að flokka bækurnar til þess hvað þau eigi að hafa í matinn á föstudögum. Bythell er óvæginn í lýsingunum á henni en finnur þó sniðuga leið til að leyfa henni að jafna metin þegar hún fær, um miðbik bókar, aðgang að áðurnefndri Facebook-síðu verslunarinnar og lætur þar gamminn geysa um Bythell sjálfan.

Þótt stanslaust stríð virðist ríkja milli höfundarins og Nicky (hún tekur þróunarkenningu Darwins úr vísindadeildinni og flytur í skáldað efni, hann færir Biblíuna sömuleiðis yfir í skáldsögurnar) er þó augljóst að það ristir ekki djúpt og raun eru þau perluvinir.

Þar sem Bythell er, á yfirborðinu alla vega, fúllyndur og dónalegur fornbókasali sem kemur oftar en ekki með meinfyndnar athugasemdir um sjálfan sig, viðskiptavinina og samstarfsfólk og finnst í ofanálag sopinn góður, verður samanburður við hinn ógleymanlega bóksala úr bresku gamanþáttunum Black books nánast óhjákvæmilegur. Það er því skemmtilegt þegar Dylan Moran kemur sjálfur inn í búðina á árlegri bókmenntahátíð og Bythell fellur hreinilega í stafi. Bókmenntahátíðin er svo ákveðin hápunktur ársins og þar með bókarinnar, en þá umbreytist litli bærinn allur og rithöfundar og lesendur frá öllum heimshornum streyma að.

Galdur bókarinnar liggur í kaldhæðnislegri kímnigáfu bóksalans

Að bókmenntahátíðinni undanskilinni er raunar ekki mikið um hápunkta og endurtekningin í dagbókinni ansi mikil; það er kalt, það rignir, það eru fáir viðskiptavinir, það lekur o.s.frv. en þó nær bókin samt að halda athygli lesandans sem heldur áfram, kannski í veikri von um að í næsta hálfmyglaða kassa sem Bythell grefur upp úr dánarbúi finnist verðmæt bók sem bjargi búðinni. Það er eiginlega ótrúlegt að Dagbók bóksala sé jafn læsileg og raun ber vitni, og það svo að bókin hefur slegið í gegn og Bythell hefur meira að segja skrifað framhald: Confessions of a Bookseller, sem mætti útleggjast sem Játningar bóksala.

Galdur bókarinnar liggur kannski í kaldhæðnislegri kímnigáfu bóksalans sjálfs, sem og þeirri skemmtilegu innsýn sem bókin veitir inn í lífið í smábæ í Skotlandi þar sem allir þekkja alla. Þá er líka áhugavert að fylgjast með rekstri bókabúðarinnar og ekki síður þeirra ráða sem Bythell grípur til til að drýgja tekjurnar; í bókabúðinni er til dæmis fallegt svefnloft með rúmi sem hægt er að gista í gegn gjaldi og einnig selur Bythell stöku húsgögn og jafnvel tvö klósett í búðinni innan um bækurnar. Áhugaverðar eru líka ferðir Bythells í heimahús til að kaupa bækur úr dánarbúum, nú eða þá af fólki sem er sjálft við dauðans dyr og er að ganga frá sínum málum og þar með bókasöfnum.

Hvöss áminning um neysluvenjur okkar

Bókin er fyndin en hún er líka á köflum hvöss áminning um það hvernig við sem lesum (og þar er undirrituð engin undantekning) höfum leyft málum að þróast þannig að hver bókabúðin á fætur annarri leggur upp laupana og gefst upp fyrir Amazon. Auðvitað er það okkar ábyrgð að versla bækur af bókabúðum í nærumhverfi okkar ef við viljum eiga þess kost að geta gengið inn í töfraheima bókabúðarinnar, handleikið, skoðað, valið, fengið aðstoð og upplýsingar og ratað á eintak sem rafrænn heimur Amazon hefði aldrei leitt mann að.

Bythell sjálfur á í viðskiptum við Amazon og selur bækur í gegnum þá, en vandar þeim svo sannarlega ekki kveðjurnar. Þar kemur að því að hann tekur lesbretti frá Amazon, svokallaðan kindil, skýtur hann með haglabyssu og hengir svo upp í búðinni, viðskiptavinir þurfa ekkert að velkjast í vafa um skoðanir eigandans á rafrænum bókum. Það er því kannski hámark kaldhæðninnar að Dagbók bóksala er nú til sölu á Amazon og þar er einnig fáanlegt rafrænt eintak fyrir kindilinn.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Draugar fortíðar birtast á blaði

Bókmenntir

Bókmenntarýnirinn sem áhrifavaldur

Bókmenntir

Saga sem sannar að rómantíkin er ekki dauð