Andfýla borgarinnar minnir á mikilvægi fjallaloftsins

Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd

Andfýla borgarinnar minnir á mikilvægi fjallaloftsins

18.07.2020 - 12:27

Höfundar

Listamennirnir Smári Róbertsson og Nína Harra, sem búsett eru í Amsterdam, kjósa að starfa sem skálaverðir í Emstrum yfir sumarmánuðina. „Kannski er það einfaldlega andfýla borgarinnar, osta- og kannabisfnykur sem undirstrikar mikilvægi fersks íslensks fjallalofts.“ Þau gefa hlustendum Sumarmála á Rás 1 innsýn í líf sitt að Fjallabaki.

Smári Róbertsson og Nína Harra skrifa:

Síðustu fimm ár höfum við farið frá Amsterdam, þar sem við búum og störfum sem listafólk, til Íslands yfir sumarmánuðina til að vinna sem skálaverðir að Fjallabaki fyrir Ferðafélag Íslands. Sumarið 2020 sitjum við hér í Botnum í Emstrum á Laugaveginum, tökum á móti gestum og sjáum um svæðið.

Það er kannski bara ákveðin heimþrá sem veldur því að við komum hér í vinnu sem krefst þess að flagga á hverjum morgni. Kannski dregur lárétt flatlendið mann smátt og smátt niður á bakið og kannski dregur hvert handtak upp að húni okkur upprétt gagnvart lóðréttum fjöllunum.

Kannski er það einfaldlega andfýla borgarinnar, osta- og kannabisfnykur sem undirstrikar mikilvægi fersks íslensks fjallalofts. En hvað sem því líður er það mikilvæg tilbreyting fyrir okkur að sleppa úr þessu daglega amstri í Amsterdam til Emstra og hér erum við aftur, um amstur, frá Amsterdam, til Emstra.

Þegar við höldum í svona langa vist á fjöll er ýmislegt sem þarf að athuga að hafa meðferðis því ýmiss konar aðstæður kalla á ýmiss konar aðbúnað, útbúnað og áhöld:

Varasalva, tannbursta, tannkrem, krem, andlitskrem, handáburð, kertastjaka, kerti, spil, kaffibolla, kaffibrúsa, vatnsbrúsa, vatnsflösku, fílófax, penna, blýant, strokleður, hníf, rakvél, rakspíra, raksápu, handsápu, svitalyktareyði. Staðbundna bók, tímabundna bók, tímalausa bók, kosmíska bók, andlega bók, stutta bók, skissubók, draumadagbók og skálavarðahandbók.

Taka áhyggjurnar með á fjöll

Fólk talar um það að þegar farið er á fjöll skuli skilja eftir allar áhyggjur í bænum. En það er smá eins og að skilja eftir stútfullt eldhús af uppvaski eða fulla vél af blautum þvotti. Áhyggjur skal taka með og þær skal skorða varlega í rassvasa svo þrengi að þeim þegar sest er til hvíldar eftir langan dag. Smátt og smátt bráðna þær svo burt, verða svo næfurþunnar af rósemi, að maður finnur varla fyrir þeim. Bara smá brak í tvíbrotnu A4-blaði þar sem áður sat oddhvasst grágrýti rífandi í aðra rasskinnina á meðan hin sat ber á mjúkri mosabreiðu, eða kreist út í litlum bólum úr neti í þar til gerðum útilegustól. Taki maður blaðið upp og lesi það er þetta ekkert nema vistalisti ferðarinnar og flest allt annað skroppið saman í óhlutstæðar fræðilegar vangaveltur fortíðar. 

Kaffi, kaffimjólk, haframjólk, eplaedik, epli, basil, lime, gúrka, paprika, sítróna, gulrætur, kartöflur, sætar kartöflur, grasker, laukur, hvítlaukur, vorlaukur, spergilkál, lárperur, engifer. Bláberjasulta, silungur, smjör, hnetusmjör, hafrar. Tómatar, tómatpúrra, tómatar í dós, ananas í dós, kjúklingabaunir, nýrnabaunir, bakaðar baunir, svartar baunir, poppbaunir, rauðar linsubaunir, grænar linsubaunir, tófú, tortillur, kínóa, hrísgrjón, möndlur, pekanhnetur, furuhnetur, kasjúhnetur, salthnetur, piparmintute, rauðrunnate, blandað te, tepoka, Prins póló, bjór, málband. 

Þurrkað sojakjöt, saltstangir, bankabygg, hveiti, ólífuolía, kókosolía, salt, pipar, grænmetiskraftur, kjötkraftur, sveppakraftur, hunang, sinnep, kanil, chilipipar, cayenne pipar, paprika, reykt paprika, basilikum, kumín, múskat, kryddblöndur, næringarger, sojasósa, tamarisósa, buff, bulsur, Tabasco, tahini, tapenade, pestó, döðlur, chilimauk, parmesanostur, rjómaostur, ostur, sítrónusafi, mæjónes, egg, kex, poppkex, súkkulaðikex, kaffikex, piparkökur, flatkökur, hrökkbrauð og Cheerios.

Hljóðnemi, hljóðkort, diktafónn, heyrnatól, hátalari, höfuðljós, hárband, hálsklútur, húfa, derhúfa, sólhattur, trefill, vettlingar, buff, snúra, hleðslutæki, batterí, fartölva, gúmmístígvél, vaðskór, strigaskór, gönguskór og inniskór. 

Hugvitsemi fólgin í því að taka með sér inniskó í óbyggðir

Það er ákveðinn hugvitsemi fólgin í því að taka með sér inniskó þegar haldið er til öfæfa, til óbyggða fjalla og mannlausrar víðáttu, þó það sé hálfgerð mótsögn. Nú tökum við fram að undir engum kringumstæðum yrðum við gripin á sokkaleistunum, og við höfum algjöra óbeit á sandkornum og klístri, og færi því ekki fet á iljunum á best skúruðu línóleumdúkum landsins, nema þá kannski í Hrauneyjum sem algjör undantekning.

Reynum við okkar besta að standa ekki berskjölduð gagnvart gólfum landsins og hefur gríma utangátta eða sveimhuga listamanns oft reynst vel til að valsa óséð inn á heimili fólks í skóm. Umkomuleysið sem fylgir skóleysi sker djúpt aftur í árin og renna yfir mann áþreifanlegar snertitengingar minninga um hálkuvarðar límbandsrendur stigaganga grunnskóla og hvernig krafsið í gripnum bómullarsokkum risti hærra því lægri sem maður var. Sveiflutíðnir sem maður á að vera löngu búin að gleyma frá óskertu heyrnarsviði æsku manns.  

Föðurland, nærbuxur, ullarnærbuxur, buxur, regnbuxur, hlýjar buxur, náttbuxur, göngubuxur, úlpa, létt úlpa, jakki, vindjakki, regnkápa, flíspeysa, opnin ullarpeysa, ullarpeysa, svunta, hetta, bursti, bol, náttbolur, langerma bolur, samfestingur, kjóll, skyrta, gleraugu, lak, sæng, sængurver, koddi, koddaver, handklæði, þvottapoki. 

Léttir að losa skóinn

Maður tekur með sér skorpinn heilabörkinn, rúsínuvetursetu svo skroppin og þrjósk að andfýlan svíður í augun. Gengur maður niður að Markarfljóti og hellir sér yfir það. Svo sestu á árbakkann og lúberð blautan heilann við flatan stein. Landslagið er eins og gert til að teygja á stirðum taugamótum boðskiptakerfi heilans.

Ranghugmyndir og forstillingar, sem læðast eins og litlir steinar ofan í bitra kuldaskó vetrarins, og forðast uppgötvun í þykkum ullarsokkum betur gleymdra skoðana, gera fljótt vart við sig á göngu yfir Laugaveginn. Þá er ekki annað ráð nema að ríghalda í sársaukann í hverju skrefi, segja: „Jú, erum þetta ekki við mynduð af möl, vörður reistar á grjóthörðum ósveigjanlegum hugmyndum. Og hvað varðar það vörðu þó henni blæði úr iljunum af einskærri þrjósku til að halda sér saman?“ 

En svo er líka hægt að einfaldlega setjast niður, taka af sér skóinn og hrista vel úr. Það léttir gönguna að losa hnullunga úr skóm og bakpoka, sem tilheyra betur þessu ævaforna landslagi, og gefa þig allan á vald heilaþvottastöðvarinnar að Fjallabaki. 

Tengdar fréttir

Hafnarfjarðarkaupstaður

Einmanalegt og stórfurðulegt að vera landvörður núna