Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allsherjarverkfall misráðin aðgerð, segir Lára V.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lára V. Júlíusdóttir lögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, segir allsherjarvinnustöðvun sem Flugfreyjufélag Íslands ætli að greiða atkvæði um sé mjög misráðin. Hún geti orðið tvíbent vopn sem Samtök atvinnulífsins gætu nýtt sér til að semja við aðra. Þá sér hún ekki fyrir sér að hugsanleg samúðarverkföll yrðu almennt liðin í því ástandi sem nú sé uppi. 

Spurning hvort verkfallsbrot hjá flugmönnum

Flugfreyjur hjá Icelandair greiða í næstu viku atkvæði um allsherjarvinnustöðvun sem hefst 4. ágúst. Engar flugfreyjur starfa frá næsta mánudegi hjá Icelandair og flugmenn sinna öryggisgæslu í farþegarými í stað þeirra. Lára V. Júlíusdóttir segir að verði verkfall samþykkt gæti sú spurning vaknað hvort flugmenn væru að brjóta verkfall.

Aðgerðin gæti unnið gegn flugfreyjum

Hún segir að eins og kjaradeilunni sé stillt upp núna sé hún spurning um líf og dauða fyrir Icelandair: 

„Og allsherjarvinnustöðvun sem Flugfreyjufélagið ætlar að boða til eða telur sig vera að boða til hana tel ég svona í ljósi alls þessa mjög misráðna og ég tel að það geti orðið mjög tvíbent vopn í höndunum á þeim ef að þær fara síðan í allsherjarverkfall í framhaldinu. Ég veit ekki hvað það á svo sem að leysa. Það bara herðir alla hnúta, enn frekar,“ segir Lára V. Júlíusdóttir. 

Auk þess sem flugfreyjur fengju ekki laun í verkfalli að þá gætu Samtök atvinnulífsins sem eiga í kjaradeilunni við Flugfreyjufélagið nýtt sér stöðuna úr því að það væri verkfall, búið að fella kjarasamning og ekki við neinn að semja. 

„Þá gætu Samtök atvinnulífsins þess vegna fundið einhvern hóp fólks sem er tilbúið þess vegna að búa til stéttarfélag í þessum tilgangi og sem að myndi bara grípa þessa gæs. Það er að segja það er náttúrulega til fullt af fólki, sem er menntað sem flugfreyjur og flugþjónar sem að eru atvinnulaus eða ekki að vinna þá vinnu, sem þau vinna núna, sem að væru mögulega tilbúin til að fara inn í þessi störf þá leiðina.“

Efast um samúðarverkfall í þessu ástandi

Lára segir að heimilt sé að boða í samúðarverkfall en langsótt sé að norræn félög boði samúðarverkfall, fjárstuðningur sé algengari frá félögum í öðrum löndum. Hún efast um samúðarverkföll hérlendis: 
 
„Ég sé kannski ekki alveg það gerast í því ástandi sem er að það yrði almennt liðið. Og þá er ég að hugsa til að vissulega hafa stjórnvöld eða réttara sagt löggjafinn þann möguleika að setja bara einhvers konar bann á slíkar aðgerðir.“