Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tom Moore er orðinn Sir Tom

17.07.2020 - 14:49
Mynd: AP / Getty Pool
Tom Moore, fyrrverandi kapteinn í breska hernum, var í dag sleginn til riddara. Hann náði fyrr á þessu ári að safna 32,8 milljónum sterlingspunda til styrktar breska heilbrigðiskerfinu þegar COVID-19 farsóttin var í hámarki. Það gerði hann með því að ganga kringum húsið sitt í Bedfordskíri og safna þannig áheitum. Upphæðin nemur hátt í 5,8 milljörðum króna.

Moore hafði einsett sér að ganga hundrað hringi áður en hann yrði hundrað ára 30. apríl. Markmið hans var að safna þúsund pundum. Elísabet drottning sló Sir Tom til riddara í garði Windsorkastala. Þar hefur drottningin dvalið um hríð ásamt Filippusi, eiginmanni sínum, vegna faraldursins. Viðstödd athöfnina í dag voru dóttir Sir Toms, tengdasonur og tvö barnabörn.

Boris Johnson forsætisráðherra var svo hrifinn af framtaki gamla hermannsins að hann tilnefndi hann til riddaratignar. Breski herinn sæmdi hann jafnframt heiðursofurstanafnbót. Á afmælisdaginn bárust Sir Tom yfir 140 þúsund afmæliskort.

Þessu til viðbótar má nefna að Sir Tom varð skömmu fyrir 100 ára afmælið elstur flytjenda til að komast í efsta sæti breska smáskífulistans. Það gerði hann með laginu You'll Never Walk Alone. Tónlistarmaðurinn Michael Ball aðstoðaði hann við flutninginn ásamt kór breskra heilbrigðisstarfsmanna.
 

Captain Sir Thomas Moore receives his knighthood from Britain's Queen Elizabeth, during a ceremony at Windsor Castle in Windsor, England, Friday, July 17, 2020. Captain Sir Tom raised almost £33 million for health service charities by walking laps of his Bedfordshire garden. (Chris Jackson/Pool Photo via AP)
Mynd: Getty/AP
asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV