Moore hafði einsett sér að ganga hundrað hringi áður en hann yrði hundrað ára 30. apríl. Markmið hans var að safna þúsund pundum. Elísabet drottning sló Sir Tom til riddara í garði Windsorkastala. Þar hefur drottningin dvalið um hríð ásamt Filippusi, eiginmanni sínum, vegna faraldursins. Viðstödd athöfnina í dag voru dóttir Sir Toms, tengdasonur og tvö barnabörn.
Boris Johnson forsætisráðherra var svo hrifinn af framtaki gamla hermannsins að hann tilnefndi hann til riddaratignar. Breski herinn sæmdi hann jafnframt heiðursofurstanafnbót. Á afmælisdaginn bárust Sir Tom yfir 140 þúsund afmæliskort.
Þessu til viðbótar má nefna að Sir Tom varð skömmu fyrir 100 ára afmælið elstur flytjenda til að komast í efsta sæti breska smáskífulistans. Það gerði hann með laginu You'll Never Walk Alone. Tónlistarmaðurinn Michael Ball aðstoðaði hann við flutninginn ásamt kór breskra heilbrigðisstarfsmanna.