Sýnataka eftir heimkomusmitgát opnaði í morgun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Fyrstu sýni þeirra sem verið hafa í heimkomusmitgát voru tekin í morgun þegar gamla Orkuhúsið við Suðurlandsbraut var formlega opnað. Aðeins rúm eitt þúsund sýni voru tekin í gær fyrsta daginn þar sem ferðamenn frá fjórum löndum sluppu við skimun. 

Miklu minna álag eftir að öruggum löndum var fjölgað

Aðeins 1046 sýni voru tekin á landamærunum í gær, nokkru færri en undanfarið. Aðalástæðan er líklega sú að í gær var Það var fyrsti dagurinn þar sem ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi sluppu við landamæraskimun. Sömuleiðis eru Íslendingar sem snúa aftur heim frá viðkomandi löndum undanþegnir kröfum um sóttkví og skimun. 

„Það var svo sannarlega minni trafík í sýnatökur í gær út af þessum löndum sem eru orðin örugg. Þetta gekk bara allt ljómandi vel í gær, bæði að tala við fólkið sem var að koma frá öruggum svæðum vegna þess að einhverjir þurfa að fara í sýnatöku sem að koma frá öruggum svæðum ef þeir hafa dvalið í öðru landi síðast liðna fjórtán daga en landinu sem það er að koma frá,“ segir Jórlaug Heimisdóttir verkefnisstjóri landamæraskimunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

100 mættu strax í morgun

Um leið og dregur úr álaginu við landamæraskimun bætist við annað álag; seinni sýnataka þeirra sem búsettir eru hérlendis og eru að ljúka fjögurra til sex daga heimkomusmitgát. Höfuðborgarbúar fara í seinni sýnatökuna í gamla Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut. 

„Það eru búnir að koma tæplega hundrað manns í morgun frá klukkan níu. Það er svolítið erfitt að segja hvað það eru margir nákvæmlega sem koma í dag. Það er búið að bóka 30 í sýnatöku á Selfossi, einhver á Ísafirði, einhver á Akureyri, Vestmannaeyjum þ.a. fólk er að skila sér í þessa fimm daga sýnatöku.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi