Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stjórn VR vill sniðganga hlutafjárútboð Icelandair

17.07.2020 - 16:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Stjórn VR vill að stjórnarmenn sem VR skipaði í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sniðgangi eða greiði atkvæði gegn þátttöku lífeyrissjóðsins í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórnin sendi frá sér eftir að Icelandair sleit viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands um kjarasamning og lýsti því yfir að semja ætti við annan viðsemjanda um kjarasamning.

Í yfirlýsingu VR segir að fjöldi félagsmanna verkalýðsfélagsins hafi starfað áratugum saman hjá Icelandair en verið sagt upp á sama tíma og flugfélagið stundi félagsleg undirboð. Það hafi verið gert með úthýsingu starfa í löndum þar sem réttindi séu fótum troðin.

„Stjórn VR getur ekki sætt sig við það að eftirlaunasjóðir launafólks séu notaðir til fjárfestinga í fyrirtækjum sem hvetja til félagslegra undirboða,“ segir í yfirlýsingu VR. „Það stríðir gegn öllum þeim gildum sem verkalýðshreyfingin stendur fyrir. Lífeyrissjóðirnir hafa einnig sett sér alþjóðleg siðferðisleg viðmið í fjárfestingastefnum sínum og ber að fylgja þeim eftir.“