Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sakfelldur þrátt fyrir breyttan framburð eiginkonu

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi mann í vikunni fyrir að beita eiginkonu sína ítrekað ofbeldi, þar af tvisvar fyrir framan börn hennar. Dómstóllinn dæmdi manninn sekan þrátt fyrir að konan breytti framburði sínum áður en kom að réttarhöldunum. Hún gerði þá minna úr árásum mannsins en hún og önnur vitni höfðu áður gert við yfirheyrslur hjá lögreglu.

Ákæra gegn manninum var í þremur liðum. Hann játaði umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot en neitaði sök í þeim lið ákærunnar sem sneri að ofbeldi gegn konu hans. Maðurinn var ákærður fyrir að ganga í skrokk á eiginkonu sinni í þrjú skipti frá því snemma árs 2017 fram á vor 2019. Í fyrsta og síðasta skiptið urðu börn konunnar vitni að árásunum. Hótaði hann börnunum og var ógnandi. 

Konan lýsti ofbeldi af hálfu eiginmanns síns í skýrslugjöf hjá lögreglu og önnur vitni lýstu málum með sama hætti. Lýsingar á ofbeldi mannsins fengu líka stoð í rannsóknum á áverkum sem konan var með. 

Breytt afstaða í dómsal

Þegar kom að réttarhöldunum færðist konan undan því að gefa skýrslu. Hún óskaði eftir að gefa yfirlýsingu og sagði þá að framburður hennar hjá hefði verið ýktur og að eiginmaður hennar hefði í mesta lagi ýtt við henni. Framburður konunnar var þá orðinn í samræmi við framburð eiginmanns hennar, sem ákærður var fyrir ofbeldið gegn henni.

Þessi breytti framburður konunnar hafði ekki áhrif á niðurstöðu dómara sem sagði að meta þyrfti framburð hennar í því ljósi að hún væri í sambúð með manninum og þau ættu börn saman. Þá væri sá munur á vitnisburði hennar hjá lögreglu og yfirlýsingu fyrir dómi að fyrri vitnisburður fengi um flest stuðning í framburði annarra vitna. Það sama ætti ekki við um yfirlýsingu hennar. Dómarinn sagði að auki að breyttar lýsingar konunnar útskýrðu ekki þá áverka sem hún var með. Því var breyttur framburður konunnar metinn ótrúverðugur, rétt eins og lýsingar eiginmanns hennar.

Maðurinn hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV