Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikill þrýstingur á símfyrirtæki frá BNA vegna Huawei

17.07.2020 - 20:04
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Fulltrúar bandaríska sendiráðsins hér á landi hafa beitt sér gegn því að íslensk fjarskiptafyrirtæki kaupi tækjabúnað frá kínverska fyrirtækinu Huawei, segja forsvarsmenn íslensku félaganna. Engir öryggisgallar hafa fundist í tækjunum að sögn sérfræðinga.

Bandarísk stjórnvöld hafa undanfarið aukið þrýsting á Evrópuríki um að koma í veg fyrir að fimmta kynslóð farnetsins – 5G – verði byggð upp með tækjum frá kínverska fyrirtækinu Huawei. Í síðustu viku bönnuðu Bretar kaup á þessum tækjum frá næstu áramótum. Bandaríkin hafa einnig þrýst á íslensk stjórnvöld um að banna Huawei.

„Eins og ég sagði í dag, þá hvet ég Íslendinga til þess einnig að bera kennsl á þau djúpstæðu vandamál sem koma upp þegar frjáls ríki taka upp tækni og búnað frá Huawei,“ sagði Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, fyrir framan Höfða í Reykjavík í heimsókn sinni hingað til lands í fyrra. Hann hafði þá fundað með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra.

Undirbúa uppbyggingu 5G með Huawei

Íslensk fjarskiptafyrirtæki undirbúa nú uppbyggingu 5G-kerfisins hér á landi. Nova og Vodafone ætla að versla 5G-fjarskiptakerfi af Huawei. Bæði fyrirtækin reka fjórðu kynslóð farnetsins á tækjum frá Huawei. Síminn ætlar að kaupa tæki af sænska framleiðandanum Ericson. Fjarskiptafyrirtækin hafa einnig fundið fyrir þrýstingi Bandaríkjanna.

„Það hefur verið mikill þrýstingur sérstaklega frá sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi og aðallega frá þeim sem hafa óskað eftir fundum og komið til fundar við okkur til að ræða Huawei og kínverska fjarskiptaframleiðendur,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone.

Spurður hvert erindi fundanna hafi verið segir Heiðar þar hafi komið fram kunnugleg stef: „Erindið er þá að reyna að mála upp einhverja mynd sem þeir hafa svosem málað upp hjá sjálfum sér í Washington um það sé slæmt að það sé í raun og veru samkeppni á þessum markaði. Það er betra finnst þeim að það væru bara tvö fyrirtæki sem sætu á markaðnum sem eru Nokia og Ericsson.“

PFS fylgist með

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur umsjón með framkvæmd fjarskiptamála á Íslandi. Þar hefur ekki verið gerð sérstök könnun á því hvort kínversk stjórnvöld geti hlerað í gegnum búnað frá Huawei.

„En við fylgjumst náttúrlega með umræðunni og erum í samskiptum við okkar systurstofnanir, sérstaklega í Evrópu og við vitum ekki til þess frá þeim að nokkuð misjafnt hafi sannast á Huawei, hvorki hér né annarstaðar í heiminum,“ segir Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknisviðs PFS.

„Auðvitað höfum við alltaf öryggið á oddinum og höfum áhyggjur af því ef að einhverjar svona ætlanir koma upp eða áhyggjur en það er kannski fyrst og fremst stjórnvalda að taka tillit til og setja viðmið um birgjakeðjuna fyrir fjarskiptabúnað.“