Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hætta á vatnavöxtum og skriðuföllum

Mynd með færslu
 Mynd: Markus Spiske - Pexels
Mikilli úrkomu er spáð áfram á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum. Í Hvalá í Ófeigsfirði stefnir í metflóð í fyrramálið haldi úrkoman áfram af sama krafti. Yfirborð árinnar hefur hækkað um heilan metra undanfarinn sólarhring.

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Vestfirði. Þar rignir af krafti og er hvasst mjög. Hætt er við að ár og lækir fljóti yfir bakka sína og í fjöllum geta skriður fallið.

Báta-, skipa og skútueigendur eru hvattir til að huga vel að landfestum.

Jafnframt rignir mikið á Tröllaskaga á morgun eftir því sem fram kemur á vef Veðurstofunnar. Það veldur auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Ætla má að skriður geti fallið og grjót hrunið úr bröttum hlíðum.

Það sama er uppi á teningnum við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul. Þar geta vöð orðið varasöm og fólk á ferð brýnt til aðgátar við óbrúaðar ár.

Í byggð er fólk hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón og binda allt lauslegt niður eða koma því í skjól.