Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Grjót hrundi með miklum drunum á Ísafirði

17.07.2020 - 15:37
17. júlí 2020
 Mynd: Teitur Magnússon - Skjáskot
Grjót féll úr hlíðum með miklum drunum á Ísafirði fyrir um stundu vegna óhemju úrkomu þar í dag. Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að búast megi við grjóthruni og skriðum áfram meðan úrhellið gengur yfir. Það sé ekkert tilefni til að vera á ferli á Vestfjörðum.

Teitur Magnússon, íbúi á Ísafirði, tók meðfylgjandi myndskeið þegar skriða féll með miklum látum í hlíðinni beint fyrir ofan Hjallaveg á Ísafirði í dag. Engan sakaði og grjótið stöðvaðist neðar í hlíðinni. Úrhelli er á Ísafirði og ekkert útlit fyrir að það stytti upp fyrr en síðdegis á morgun. 

Teitur lýsir því hvernig og brunnur sem tekur við frárennsli í Bæjarbrekkunni sé eins og gosbrunnur. Þá flæddi inn í byggingar í Súgandafirði þar sem úrkoman er einna mest.

Á Flateyri hafa fallið yfir 25 mm síðustu sex tímana og stefnir í að það gæti orðið yfir 100 mm á sólarhring. Þar er úrkoman komin í 91 mm síðasta sólarhringinn. „Það er ekkert lát á þessari rigningu og hún heldur áfram fram eftir morgundeginum,“ sagði veðurfræðingur í samtali við fréttastofu.

Hann segir úrkomuna í dag og í gær mjög mikla fyrir þetta svæði.

Það skánar fyrst á vestanverðum kjálkanum síðdegis á morgun þegar úrkoman dregst til austurs, uns rigningunni slotar sunnudagsmorguninn.