Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Býst ekki við verðbólgu þrátt fyrir veikari krónu

17.07.2020 - 08:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir ekkert benda til þess að verðbólga láti á sér kræla í bráð. Í viðtali í Morgunblaðinu segir hann að samdráttur í hagkerfinu í haust muni halda aftur af verðhækkunum. Verðbólgan hafi verið undir markmiðum Seðlabankans í mars þegar gengið tók að veikjast og hún hafi fylgt markmiðum bankans og verið um 2,5 prósent á fyrri helmingi ársins.

Ásgeir segist hafa litlar áhyggjur af veikingu krónunnar. Hann segir að hún eigi sér engar sérstakar skýringar og hafi komið fram rólega í nær engri veltu á gjaldeyrismarkaði. Ekki sé útilokað að krónan styrkist aftur eftir sumarið. „Nú er júlí og lítil hreyfing á gjaldeyrismarkaði. Veikingin nú í júlí hefur komið fram í mjög litlum viðskiptum og ég myndi ekki lesa mikið út úr því,“ segir Ásgeir í viðtalinu. 

Þjóðin þarf ekki að óttast kollsteypu í genginu

Aðspurður hvort til standi að grípa inn í gjaldeyrismarkað til að tryggja stöðugleika segir Ásgeir Seðlabankann hafa tryggt stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og komið í veg fyrir öfgakenndar sveiflur. Bankinn snúi ekki beinlínis við gengisþróuninni: „Við höfum farið inn á markaðinn þegar stórar fjárhæðir hafa verið að fara í gegnum hann til þess að koma í veg fyrir að gengið hnikist mikið til. Þjóðin þarf því ekki að óttast kollsteypu í genginu,“ segir hann. Þá gæti fjölgun erlendra ferðamanna ýtt undir það að krónan styrkist.

Hagkerfið tekur vel við sér

Að sögn Ásgeirs virðist hagkerfið taka vel við sér og ferðaþjónustan að lifna við hraðar en gert var ráð fyrir. Hann segir kortaveltu hafa aukist, neysla innlendra ferðamanna hafi áhrif og að greina megi jákvæð merki á fasteignamarkaði eftir vaxtalækkanir. Hugsast megi að samdráttur á árinu verði minni en búist var við þegar samkomubann var sett á í vor, en enn sé mikil óvissa. Ásgeir bendir á að sjávarútvegurinn hafi notið góðs af lágu olíuverði og lágu gengi. Þá hafi verð sumra sjávarafurða hækkað.