Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

British Airways leggja Júmbó

17.07.2020 - 04:11
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Breska flugfélagið British Airways hyggst nú þegar hætta notkun allra Boeing 747 Jumbo þotna sinna.

Talsmaður flugfélagsins sagði í yfirlýsingu til AFP fréttastofunnar að ólíklegt væri að þessari „drottningu háloftanna" yrði flogið með farþega framar. Ástæðan er sögð vera hið mikla fjárhagstjón sem Covid-19 hefur valdið flugfélögum um allan heim.

Boeing 747 Jumbo þotur hafa verið notaðar til að flytja fólk og varning í fimmtíu ár. British Airways hefur enn á að skipa 31 slíkri þotu, fleiri en nokkurt annað flugfélag.

Ætlunin var að hætta notkun vélanna 2024 enda væri nú hægt að velja úr mun sparneytnari þotum sem þjóna sama tilgangi.

Covid-19 hefur þgar valdið flugfélögum miklum búsifjum. Tap British Airways frá marslokum nemur 1,8 milljarði Bandaríkjadala. Félagið hefur neyðst til að segja um tólf þúsund starfsmönnum um og hefur selt hluta geysiverðmæts málverkasafns síns til að fjármagna reksturinn.