Þúsundir berjast við elda í Síberíu

16.07.2020 - 17:57
Mynd: AP / RU-RTR
Íbúum Jakútíu og fleiri svæða í Síberíu hefur verið ráðlagt að halda sig innan dyra og reyna ekki á sig af óþörfu vegna reykjarkófs sem leggur frá kjarr- og skógareldum í landshlutanum. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru sagðar höfuðorsök eldanna.

Jakútsk, höfuðborg Jakútíu, hefur orðið einkar illa úti. Þar búa um þrjú hundruð þúsund manns. Íbúarnir segja að gróðureldar með tilheyrandi reykjarmengun séu orðnir árlegur viðburður. Fedot Tumusov, þingmaður frá Jakútíu, vill að sjálfstjórnarlýðveldið fái meira fé úr sameiginlegum sjóðum Rússlands til að geta tekist á við vandamálið. Ráðamenn eru sakaðir um að hafa vanrækt umhirðu skóganna og varnir við eldsvoðum í þeim.

Rúmlega fimm þúsund manns hafa síðustu dægrin barist við elda á hátt í tvö hundruð stöðum á yfir fjörutíu þúsund hektara svæði. Eldarnir brenna á mörgum sinnum stærra svæði, en er ekki sinnt þar sem einungis er leyfilegt að fylgjast með ástandinu þar utan úr geimnum. Frá janúar til júní í ár hefur hitinn verið fimm stigum yfir meðallagi í Síberíu. Það eykur enn á eldhættuna í landshlutanum. Hitamet féll þar í síðasta mánuði þegar hitinn fór í 38 stig í borginni Verkhoyansk. Vísindamenn segja nánast útilokað annað en að hitarnir í Síberíu að undanförnu séu vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi