Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tækifæri til að byggja réttlátari heim

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Þrátt fyrir að efnahagslíf heimsins sýni ákveðin batamerki stendur það frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Meðal þeirra er möguleikinn á annarri bylgju kórónuveirufaraldursins.

Þetta segir Kristalina Georgieva framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún hvetur ríkisstjórnir heimsins jafnframt til að halda áfram að styðja við einstaklinga og fyrirtæki heima fyrir.

Með slíku öryggisneti megi koma í veg fyrir að enn verr fari en ella. Nú sé tækifæri til að upp byggja betri, grænni og réttlátari veröld. Hætta sé á að heimsfaraldurinn leiði af sér fátækt og misskiptingu, fjöldi starfa hafi tapast og ekki sé öruggt að fólk geti snúið til þeirra aftur.

Því þurfi að veita stuðning og hvatningu til að aðstoða fólk við að hasla sér völl á nýjum vettvangi. Skilaboðin sendi Georgieva fjármálaráðherrum G20 ríkjanna í aðdraganda fundar þeirra í Sádi Arabíu um komandi helgi.