Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Strandveiðar gætu stöðvast í byrjun ágúst

Mynd með færslu
 Mynd:
Smábátasjómenn á strandveiðum óttast að veiðar stöðvist tæpum mánuði fyrr en áætlað var. Verði aflaheimildir ekki auknar, þurfi að binda um 650 báta við bryggju.

Strandveiðitímabilið er frá fyrsta maí til ágústloka og er heimilt að veiða fjóra daga vikunnar. Á þessum tíma má veiða 10.000 tonn af þorski, auk 1.100 tonna af öðrum tegundum.

Aðeins tíu til ellefu veiðdagar eftir að óbreyttu

Nú eru um 7500 tonn af þorski komin á land og Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir að miðað við aflann undanfarið klárist heimildirnar á tíu til ellefu dögum. Verði ekki aukið við aflann verði ekki hægt að veiða nema fram í fyrstu vikuna í ágúst. „Og nú erum við í raun að bíða eftir svörum frá ráðherra, þar sem að hann hefur gefið það út að hann muni reyna að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að veiðar stöðvist.“

Mikið í húfi um allt land

Hann segir mikið í húfi um allt land. „Í fyrsta lagi þá eru um 650 aðilar sem eru að stunda veiðarnar í dag og þeir munu allir missa tekjur frá og með þeim degi sem veiðarnar verða stöðvaðar.“ Þá hafi um 80% af þeim þorski sem selst hafi á fiskmörkuðum undanfarið komið frá strandveiðunum. Einnig treysti margar smærri fiskverkanir á þetta hráefni og mikil umsvif séu í kringum strandveiðarnar um allt land.

Segir ýmsar leiðir færar til að auka við aflaheimildir

En Örn segir veiðarnar vera að þróast eins og spáð var og þess vegna hefði þurft að leggja upp með meiri aflaheimildir strax í vor. Á það hafi verið bent margoft. Það þyrfti að hækka viðmið fyrir þorsk í 11.000 tonn og flytja yfir á þetta ár aflann sem ekki náðist að veiða á strandveiðum í fyrra. Þá séu dæmi um að ekki hafi tekist að nýta allar heimildir í öðrum kerfum, til dæmis í línuívilnun og frístundaveiðum, sem væri hægt að bæta við strandveiðarnar. „Ef er ekki hægt að gera þetta núna, þegar þorskstofninn stendur mjög sterkt og óáran dynur yfir, þá held ég að sé nú illa komið fyrir okkur,“ segir hann.