„Sennilegt“ að Penninn hafi misnotað stöðu sína

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV

„Sennilegt“ að Penninn hafi misnotað stöðu sína

16.07.2020 - 18:01

Höfundar

Samkeppniseftirlitið beinir þeim tilmælum til Pennans að taka bækur bókaútgáfunnar Uglu aftur til sölu í verslunum sínum. Í bráðabirgðaúrskurði, sem eftirlitið sendi frá sér í dag, segir að það telji sennilegt að með því að senda til baka söluhæstu bækur Uglu í maí, hafi Penninn misnotað markaðsráðandi stöðu sína á smásölumarkaði fyrir bækur.

Ástæða þessa var sögð sú að bækur Uglu væru aðgengilegar á efnisveitunni Storytel. Í bráðabirgðaúrskurði Samkeppniseftirlitsins segir að nægilega sé í ljós leitt að útgáfa Uglu á bókum í hljóðbókaformi hafi verið vigamikil ástæða þeirrar ákvörðunar Pennans að hætta að selja bækur útgáfunnar.

Þar segir einnig að þessi aðgerð hafi ekki stðst við málefnalegar forsendur, um hafi verið að ræða bækur sem seldust vel og þessi háttsemi gæti fælt íslensk bókaforlög frá því að leita nýjunga við sölu á bókum sínum. Mælst er til við Pennann að hvers konar ákvarðanir um að synja bókaútgefendum um viðskipti skuli byggja á málefnalegum forsendum sem verði skráðar í verklagsreglum og aðgengilegar viðkomandi bókaútgefendum og Samkeppniseftirlitinu.

Bráðabirgðaákvörðunin gildir til 31. desember í ár.