Ógn af kórónuveiru á Ólafsvöku

16.07.2020 - 02:19
Mynd með færslu
 Mynd: Kringvarp
Færeyskur lýðheilsusérfræðingur hvetur landa sína til að halda vöku sinni verði Ólafsvaka haldin með hefðbundnu sniði.

Sérfræðingurinn, Páll Weihe segir í samtali við færeyska kringvarpið að safnist almenningur þúsundum saman í miðbæ Þórshafnar, líkt og hefð hefur verið fyrir, geti það orðið til þess að Færeyingar missi stjórn á Covid-19 faraldrinum.

Hann lét þessi orð falla eftir að bæjarstjórn Þórshafnar ákvað að lengja afgreiðslutíma kráa og skemmtistaða á Ólafsvökunni.

Weihe segir erfitt að hafa hemil á fjölmenni, einkum eftir að áfengi hefur verið haft um hönd. Hann bendir á að við slíkar aðstæður dugi að ein manneskja sé smituð til að veiran dreifist með ógnarhraða.

Því hvetur hann alla gesti Ólafsvöku til að sýna ábyrga hegðun og halda sig fjarri miklu fjölmenni.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi