Molta nýtt í ríkari mæli til skógræktar og landgræðslu

16.07.2020 - 21:46
Notkun moltu hefur gefið góða raun í landgræðslu og skógrækt. Í kjölfar faraldursins settu stjórnvöld aukinn kraft í uppgræðsluverkefni með aðstoð moltu, annars vegar í Krísuvík og hins vegar á Norðurlandi.

Verkefnin eru tvískipt, annars vegar er moltu dreift í Krísuvík á Reykjanesi, en það er samstarfsverkefni Terra og Landgræðslunnar með stuðningi frá umhverfisráðuneytinu.  Arngrímur Sverrisson, rekstrarstjóri Terra segir tilganginn og markmiðið vera einfalt.

„Að reyna að skila einhverju af því sem þú ert þegar búinn að taka frá jörðinni, og taka þennan lífræna úrgang, í staðinn fyrir að urða hann allan, að taka hann frá og jarðgera hann og þá er þetta mjög góður jarðvegsbætir og hentar vel í alla rækt.“ segir Arngrímur.

Minna lífrænt sorp í faraldrinum

Moltuframleiðsla byggist á að safna saman lífrænum úrgangi, svosem grænmeti og ávöxtum og matarafgöngum, sem og sláturúrgangi sem fellur til og blanda saman við hann kolefni til að stuðla að réttu niðurbroti. Ferlið er flókið og krefst mikillar nákvæmi til að niðurbrotið haldi áfram.  Kórónuveirufaraldurinn hafði sitt að segja um söfnun lífræns úrgangs.

„Það hefur aðeins dregist saman söfnun á lífrænu. Miðað við þetta Covid ástand þá hafa veitingastaðir lokað eða dregið saman. Svo það er örlítið minna sem er að koma inn.“ segir Arngrímur.

Frábær áburður fyrir tré og plöntur

Hitt verkefnið er í kringum Akureyri og á Hólasandi.  Að því verkefni koma Akureyrarbær, Vistorka, Orkusetur, Skógræktin, Landgræðslan, Molta og Landbúnaðarháskóli Íslands. Verkefnið er hluti af aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum og liður í að efla hringrásarhagkerfið. Stefnt er að því að dreifa moltu bæði á Hólasandi og í grennd við Akureyri og koma upp gróðureyjum með birki.  Brynjar Skúlason, sérfræðingu hjá Skógræktinni segir að molta hafi hingað til ekki verið notuð í eins ríkum mæli til landgræðslu og skógræktar og nú er gert. Hún henti mjög vel til uppgræðslu og skógræktar.

„Moltan er náttúrulega svona alhliða áburður, lífrænn seinleystur áburður. Hann er í rauninni að losa næringarefnin yfir lengri tíma svo plantan getur nítt þetta í nokkur ár eftir að moltan er notuð. Hún inniheldur eiginlega öll næringarefni. Ef maður notar hana á rýru landi þar sem er ekki bara næringarskortur heldur vatn er af skornum skammti þá bætir hún líka rakaheldni jarðvegsins, þannig að hún hefur bara alhliða jákvæð áhrif til lengri tíma.“ segir Brynjar. 

Hægt að nýta moltu betur og víðar

Hann segir að það megi hreinlega ekki gerast að moltan sé urðuð. Menn þurfi að nýta hana víðar í ríkari mæli til uppgræðslu og ræktunnar á landi. Þá sé spennandi að gera tilraunir með gamlar heyrúllur í moltugerð. Þá þurfi að blanda kraftmiklum lífrænum úrgangi saman við heyið til að fá tilbúinn áburð. 

Á Hólasandi hefur molta verið notuð til uppgræðslu og skógræktar frá árinu 2015. Það hefur gefist vel. Þriggja ára plöntur hafa náð hné hæð sem er með allra besta móti. Brynjar segir að fyrirfram hefði fólk varla trúað því að birkið gæti vaxið svo hratt á Hólasandi. Kosturinn sem moltan hefur fram yfir tilbúin áburð er að moltan hefur meiri langtímaáhrif.  Það skili miklu varðandi kolefnisbindingu.

„Við sjáum það að birki sem er gróðursett í moltu það getur jafnvel farið að bera fræ eftir svona fimm ár eða eitthvað slíkt. Við ætlumst til að við flýtum þessu náttúrulega ferli að birki fari að dreifa sér út sjálft.“ segir Brynjar.

Moltan verður einsleitari í haust

Moltan er unnin í Eyjafjarðarsveit.  Kristján Ólafur Ólafsson, framkvæmdastjóri Moltu ehf segir að með því að nota moltuna til uppgræðslu sé stigið stórt skref í að fullkomna hringrás lífrænna efna í náttúrunni. Eins og sakir standa er moltan ögn breytileg á milli framleiðsludaga varðandi næringarefni. Það stendur þó til bóta með haustinu. 

„Í haust ætlum við að taka í gagnið nýja línu þannig að við getum blandað úrganginum þannig að hún verður ennþá einsleitari. Við erum bara að framleiða eina gerð af moltu sem við köllum Kraftmoltu. Þar er öllum úrgangi sem við tökum á móti blandað saman. Það er aðeins mismunandi hvað við tökum mikið magn af hverjum úrgangi á hverjum degi, þannig að hún getur verið aðeins mismunandi.“ segir Kristján.

Með tilkomu verkefnisins er útlit fyrir að stór hluti framleiðslunnar klárist í ár, sem hefur ekki gerst frá því að verksmiðjan tók til starfa. Kristján segir að tilkoma verkefnisins og tekjur tengdar því styðji við óhagnaðardrifna framleiðslu verksmiðjunnar. 

„Við munum allavega ekki innan gæsalappa henda neinu, það mun allt fara í uppgræðslu og í nýtingu, í kolefnisbindingu og annað slíkt.“ segir Kristján.
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi