Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Haglél og úrhelli í Árnesi

Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
Haglél og úrhelli var í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á Suðurlandi í kvöld. Gestur í sumarbústað á staðnum kvaðst aldrei hafa upplifað aðra eins úrkomu. Hlýtt er á staðnum og kom haglélið því fólki mjög á óvart.

Búist var við mikilli úrkomu og leysingum við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul í dag með hækkandi vatnshæð og miklu rennsli í lækjum og ám. Veðurstofa Íslands varar við því að vöð geta orðið varasöm og hvetur ferðafólk til þess að sýna aðgát við óbrúaðar ár.

16. júlí 2020

Sumarbústaðargestir í Árnesi mældu úrkomuna sjálfir. Mælikannan stóð úti í nákvæmlega tíu mínútur.

Spáð var mikilli úrkomu á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum í dag og á morgun en appelsínugul viðvörun er í gildi þar fram til miðnættis á morgun. Einnig er spáð mikilli úrkomu á Tröllaskaga á morgun. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum og hætta er á skriðum og grjóthruni í bröttum hlíðum.

Í morgun féll aurskriða á veginn upp á Bolafjall í grennd við Bolungarvík. Vegurinn verður lokaður næstu daga vegna skriðunnar. Þá var árlegri Hlaupahátíð á Vestfjörðum aflýst vegna veðurs og hættu á grjótskriðum. 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV