Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gul viðvörun á Vestfjörðum í dag

16.07.2020 - 07:20
Mynd með færslu
 Mynd: Veður.is
Gul veðurviðvörun er í gildi á miðhálendinu til klukkan 09:00 í dag. Á sunnan- og vestanverðu hálendinu er spáð hvassri suðaustanátt 13-18 m/s. Samkvæmt Veðurstofu Íslands gæti vindstyrkur náð allt að 25 m/s í hviðum, en slíkt er varasamt fyrir göngufólk og þá sem hafast við í tjöldum.

Viðvörun á Vestfjörðum

Klukkan 13:00 í dag tekur svo gildi gul viðvörun á Vestfjörðum. Þar má búast við talsverðri eða mikilli rigningu og norðaustanátt 13-20 m/s. Veðurstofan varar við snörpum vindhviður við fjöll, sem gætu orðið varasamar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Þá er gert ráð fyrir auknu afrennsi og vatnavöxtum í ám og lækjum, og tilheyrandi hættu á flóðum og skriðuföllum. Einnig má búast við auknu álagi á fráveitukerfi. Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Viðvörun á Breiðafirði, Ströndum og Norðurlandi vestra

Frá klukkan 16:00 tekur viðvörunin einnig til Breiðafjarðar, Stranda og Norðurlands vestra. Varað er við vondu veðri til útivistar á Ströndum og mikilli rigningu með auknu afrennsli og vatnavöxtum. Í Breiðafirði má búast við norðaustanátt 13-20 m/s og snörpum vindhviðum við fjöll. Hvassast norðantil. 

Lægð fer yfir landið sem staldrar við fyrir austan

Lægð fer yfir landið í dag með talsverðri úrkomu. Hvessir úr norðaustri á norðvestanverðu landinu og gert er ráð fyrir 20 m/s og hvössum hviðum. 

Það hvessir úr norðaustri á norðvestanverðu landinu og má búast við að vindhraði verði allt að 20 m/s, hvassari í hviðum. Þá spáir Veðurstofan suðaustan 10-15 m/s á Suðausturlandi, en hægari vind annars staðar. Úrkomulítið á Norðausturlandi.

Lægðin gæti staldrað dálítið við fyrir austan land og búast má við norðlægri átt og kalsarigningu á öllu norðanverðu landinu um helgina. Kalt verður í veðri, hiti fer jafnvel niður í 3 til 4 stig fyrir norðan og slydda eða jafnvel snjókoma til fjalla á Vestfjörðum.

Á sunnanverðu landinu má þó búast við þurru og björtu veðri um helgina en kaldara lofti en verið hefur síðustu daga.