Ekki alls staðar hægt að fara í seinni sýnatöku

16.07.2020 - 09:11
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Einungis níu heilsugæslustöðvar utan höfuðborgarsvæðisins annast seinni sýnatöku þeirra sem koma til landsins. Fólk þarf í sumum tilfellum að fara um langan veg til að komast í skimun.

Nýjar reglur um skimun á landamærum og sóttkví ferðamanna tóku gildi í byrjun þessarar viku. Samkvæmt þeim þurfa þeir sem kjósa sýnatöku fram yfir sóttkví og eru búsettir hér á landi eða eru íslenskir ríkisborgarar að fara aftur í sýnatöku fjórum til sex dögum frá heimkomu ef fyrra sýni er neikvætt.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu annars sýnatöku á sínu svæði. Utan höfuðborgarsvæðisins eru einungis níu heilsugæslustöðvar sem sinna þessari seinni sýnatöku. Þær eru heilsugæslan í Borgarnesi, Stykkishólmi, á Ísafirði og Akureyri, Egilsstöðum, Höfn, Vestmannaeyjum, Selfossi og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Gætu þurft að fara langan veg til að fara í sýnatöku

Þetta þýðir að ef einhver kemur að utan og býr á Hvammstanga þá þarf viðkomandi annað hvort að keyra til Akureyrar eða í Borgarnes til þess að koma í seinni sýnatöku.

Rósa Marinósdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur í Borgarnesi, telur ekkert því til fyrirstöðu að allar heilsugæslustöðvar sinni þessari sýnatöku líkt og annarri.

„Ég hefði haldið að það væri hægt að taka þetta á hverri stöð fyrir sig. Það er verið að taka sýni alltaf af og til á hverjum stað og ég sé ekki muninn á því að þeir myndu taka þessi sýni líka.“

Rósa segir þá ákveðið flækjustig fylgja þessu fyrirkomulagi.

„Það er kannski fólk að koma frá Akranesi hingað upp eftir í sýnatöku og svo sendum við sýnin áfram á Akranes og þaðan til Reykjavíkur. Mér finnst það vera tvíverknaður.“

Hún segir heilsugæsluna ná utan um sýnatökuna, en álagið aukist vissulega.

„Á meðan sumarleyfin eru í gangi erum við fáliðuð og það kostar að við verðum að skipuleggja vel og það getur náttúrulega eitthvað riðlast til við það.“

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi