Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

16 fallnir í átökum um yfirráð yfir Nagorno Karabakh

16.07.2020 - 19:40
Armenskir hermenn. - Mynd: EPA / PHOTOLURE
Sextán hafa fallið í átökum Armena og Asera í vikunni. Óttast er að upp úr sjóði í áratuga deilu ríkjanna um héraðið Nagorno Karabakh. Hernaðarátök brutust út á sunnudag og eru ellefu hermenn Asera, fjórir hermenn Armena og einn óbreyttur borgari fallnir.

Sjá einnig: Armenar og Aserar berjast enn

Sovétlýðveldin fyrrverandi saka hvort annað um að eiga upptök að átökunum nú. Þau deila um það hvoru þeirra Nagarno Karabakh eigi að tilheyra. Átökin nú eru þó ekki þar heldur í norðri við landamæri ríkjanna.

30.000 féllu í stríði á 10. áratug síðustu aldar

Nagarno-Karabakh hljómar eflaust kunnuglega í eyrum margra, enda hafa deilurnar staðið í yfir þrjá áratugi og kostað þúsundir mannslífa.

Stríð braust út í byrjun tíunda áratugarins þegar Sovétríkin liðuðust í sundur. Armenskir aðskilnaðarsinnar náðu yfirráðum á Nagorno Karabakh og víðar þar í kring. Talið er að um þrjátíu þúsund manns hafi fallið í stríðinu. Vopnahlé náðist árið 1994 fyrir milligöngu Rússa.

Á alþjóðavísu er svæðið viðurkennt sem hluti af Azerbaísjan. Armenar eru þó þar í meirihluta. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, hefur lengi reynt að miðla málum, án árangurs. Átökin nú brutust út eftir að forsætisráðherra Aserbaísjan lýsti því yfir að friðarviðræðurnar væru þýðingarlausar og að Armenar hefðu dregið lappirnar til að halda ástandinu óbreyttu. Aserar hafa ítrekað hótað því að ná stjórn yfir Nagarno Karabakh með hervaldi. 

Fjögur ár síðan átök brutust síðast út

Síðast brutust út átök árið 2016. Þau stóðu í fjóra daga og tvö hundruð manns biðu bana. Óttast er að stríð eigi eftir að brjótast út nú og Evrópusambandið, Rússar og Bandaríkjamenn hafa hvatt til þess að stríðandi fylkingar haldi að sér höndum. 

Þúsundir komu saman í Baku, höfuðborg Aserbaísjan á þriðjudag, og kröfðust þess að stjórnvöld beittu hervaldi til að ná aftur stjórn á svæðinu. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir