Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur að skimunargeta verði ekki flöskuháls

15.07.2020 - 19:22
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Icelandair þarf ekki að fella niður flug í vikunni, þar eð löndum á lista yfir örugg ríki verður fjölgað. Forstjórinn segist hafa átt í reglulegum samskiptum við yfirvöld um allt ferlið. Hann telur ekki að ferðamönnum fjölgi umfram skimunargetu í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sóttvarnalæknir ákvað í gær að fjölga á lista sínum yfir örugg ríki, sem þýðir að frá og með morgundeginum þarf fólk frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi ekki lengur að fara í skimun á landamærunum.

„Eins og þetta leit út um síðustu helgi var útlit fyrir að við mundum þurfa að fella niður flug, en vegna þess að það var opnað fyrir þessi lönd þá hafði það verulega jákvæð áhrif þannig að við þurfum ekki að fella niður eins og útlitið var, og það er gott,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Iceland.

Verið í reglulegu sambandi við yfirvöld

Áttuð þið í einhverjum samskiptum við yfirvöld um að taka þessa ákvörðun?
„Við höfum átt í mjög góðum samskiptum og verið í reglulegu sambandi við yfirvöld í gegnum allt þetta ferli, í raun síðan faraldurinn fór að hafa áhrif á okkar flug í marsmánuði og samstarfið og samtalið er bara mjög gott og reglulegt.“

Mundirðu segja að þið hafið þrýst á um þessa breytingu?
„Nei, við höfum bara komið í gegnum allt þetta ferli okkar sjónarmiðum á framfæri. Það hefur gengið ágætlega og það er eðlilegt að það eigi sér stað samtal milli okkar, og allra ferðaþjónustuaðila, og stjórnvalda í þessum aðstæðum sem við erum í núna,“ segir Bogi.

Telur að spáin standist

Fram kom á upplýsingafundi almannavarna í gær að Isavia gerði ráð fyrir að ferðamenn sem þyrftu skimun yrðu undir 2000 manna hámarkinu út júlí, en það gæti staðið tæpt einn dag undir lok mánaðar. Sóttvarnalæknir tók fram að spár Isavia hefðu alls ekki reynst raunsæjar hingað til og ferðamennirnir gætu því orðið fleiri. Bogi telur hins vegar að spáin standist.

En ef við horfum lengra – inn í ágúst og jafnvel enn lengra en það?
„Inn í þessa framtíð sem við sjáum – þetta er reyndar mjög stutt sem við sjáum, óvissan er mikil og hlutirnir hreyfast hratt – en svona miðað við nánustu framtíð þá gerum við ráð fyrir að afkastagetan, út frá þessum opnunum sem áttu sér stað núna og eiga sér stað núna, þá verði afkastagetan næg.“

Jafnvel þótt það komi ekki til frekari opnana?
„Já, auðvitað eru Bandaríkin enn lokuð og það hefur mikil áhrif á þetta og mikil áhrif á flug og ferðamannafjölda og á meðan það ástand varir þá teljum við að Keflavík og afkastagetan þar muni ekki hafa neikvæð áhrif á opnun okkar leiðakerfis og annarra flugfélaga,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.