Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kona látin eftir hnífstunguárás í Noregi

15.07.2020 - 01:31
Mynd með færslu
 Mynd: Tore Steen - NRK
Þrjár konur urðu í gærkvöldi fyrir hnífstunguárás í Sarpsborg, í Viken-fylki suður af Osló í Noregi. Ein þeirra er sögð vera látin.

Að sögn fréttastofu NRK bar ein kvennanna kennsl á árásarmanninn sem var handtekinn skömmu síðar í miðborg Sarpsborgar. Ekki er enn vitað hvað ódæðismanninum gekk til. Ekki er talið að fleiri eigi hlut að máli.

Í Sarpsborg Arbeiderblad segir eiginmaður einnar kvennanna að maðurinn hafi barið að dyrum og lagt til sín með eggvopni um leið og hann lauk upp. Þá rauk maðurinn inn og skar konuna í handlegg.

Vitni lýsir atburðarás annars staðar í borginni þannig að þrjár konur hafi komið hlaupandi, virst skelfingu lostnar og hrópað eftir lögregluaðstoð. Engin þeirra kvenna reyndist slösuð.

Mikill viðbúnaður var í Sarpsborg vegna árásanna sem nú eru til rannsóknar hjá lögreglu.