Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gengu í klukkutíma til að ná símasambandi eftir bílslys

15.07.2020 - 18:52
Mynd með færslu
Vöðlavík Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson
Fólk sem velti bíl sínum á leið í Vöðlavík, eyðivík við utanverðan Eskifjörð, varð að ganga í klukkutíma til að komast í símasamband og kalla eftir aðstoð. Afar brýnt er talið að bæta fjarskiptin á þessu svæði.

Fólkið var á leið upp úr Vöðlavík seint á fimmtudagskvöld, tveir fullorðnir og þrjú börn. Bíll þeirra lenti út af og valt þar sem brattar brekkur eru upp úr víkinni en ekkert fjarskiptasamband er á þessu svæði.

Gengu um þriggja kílómetra leið eftir slysið 

Til að freista þess að ná símasambandi gekk bílstjórinn áfram upp á heiðina en hin fjögur gengu um þriggja kílómetra leið niður í Vöðlavík að skála Ferðafélags Fjarðamanna. Tetra-stöð er í skálanum sem þau gátu notað til að hringja á hjálp. Lögregla og björgunarsveitir úr Fjarðabyggð komu fólkinu til aðstoðar og slapp það nánast ómeitt úr slysinu. Fólkið var svo flutt til byggða, en bíllinn var sóttur síðar.

Fjölfarið svæði yfir sumartímann  

Þetta er fjölfarið svæði yfir sumartímann og Sævar Guðjónsson leiðsögumaður á Eskifirði segir afar brýnt að bæta fjarskiptasambandið. „Þarna fara bæði gönguhópar um og veiðimenn, fyrir utan fólk úr Fjarðabyggð sem sækir mikið í þessar náttúruperlur sem þarna eru. Það er gloppótt Tetrasamband á svæðinu og bara eins og fyrir mig sem starfa mikið á þessu svæði og fer með fleiri hundruð manns þarna á hverju ári. Maður hefur áhyggjur af þessu."

Ítrekað óskað eftir því að fá sambandið bætt

Og hann segir að talað hafi verið um það í mörg ár að bæta sambandið. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð, björgunarsveitir og eigendur sumarbústaða í Vöðlavík hafi ítrekað óskað eftir því. „Eins og bara allir vita þá fer allt neyðarkerfi í gegnum GSM kerfið eða þá Tetra kefið. Og það er bara alls ekki hægt að treysta á það þarna á þessu svæði, því miður,“ segir Sævar.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV